150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[15:44]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og er hið fyrsta af mörgum sem verða lögð fram á þessu þingi sem fela í sér útfærslu á stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamninga.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, er ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags [...] Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum sem stuðla að eflingu og auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar.“

Það frumvarp sem hér er lagt fram í dag er einmitt liður í þessum umbótum. Það felur í sér sameiningu tveggja ríkisstofnana, annars vegar Íbúðalánasjóðs og hins vegar Mannvirkjastofnunar, auk aðskilnaðar fjármálalegrar umsýslu Íbúðalánasjóðs með eignir og skuldbindingar vegna útgáfu íbúðabréfa frá starfsemi sjóðsins en á síðustu árum hefur starfsemin breyst frá því að vera almennur lánasjóður í að vera tæki stjórnvalda til að framkvæma húsnæðisstuðning með greiningum og stefnumótun í húsnæðismálum, auk þess sem sjóðurinn veitir lán til samfélagslegra verkefna og úthlutana á stofnframlögum vegna almennra íbúða og greiðir húsnæðisbætur.

Ég vil byrja á að fara stuttlega yfir aðdraganda þessa frumvarps en það byggir á niðurstöðum tveggja starfshópa. Fyrri hópurinn var skipaður í september 2018. Hópnum var falið að leggja til leiðir til að draga úr áhættu ríkisins vegna sífellt aukinna uppgreiðslna lána hjá Íbúðalánasjóði en eins og kunnugt er hefur sjóðurinn takmarkaðar heimildir til þess að verjast slíkum uppgreiðslum. Í skýrslu starfshópsins sem kynnt var fyrir ríkisstjórn í lok mars á þessu ári var lagt til að Íbúðalánasjóði yrði skipt upp og sá hluti starfsemi sjóðsins sem snýr að fjármálaumsýslu vegna eldra lánasafns yrði skilin frá meginstarfsemi stofnunarinnar. Talið var að slík fjármálaumsýsla félli illa að núverandi starfsemi sjóðsins sem framkvæmdaaðila húsnæðismála og stjórntækis stjórnvalda þegar kæmi að stefnumótun, greiningum og umsýslu með húsnæðisstuðningi hins opinbera. Með því að skipta sjóðnum upp yrði til sjálfstæð eining sem gæti unnið sjálfstætt og einangrað úr uppgreiðsluvandanum.

Þetta rímar líka vel við þær breytingar sem nú þegar hafa verið gerðar á starfsemi Íbúðalánasjóðs en sjóðurinn hefur nú einkum það hlutverk að fara með stefnumótun, rannsóknir og greiningar á húsnæðismarkaði, auk þess að hafa umsjón með opinberum húsnæðisstuðningi og veita lán til félagslegra verkefna. Hópurinn taldi að með uppskiptingunni væri unnt að stefna að því að til verði öflug húsnæðisstofnun sem gegnir lykilhlutverki á húsnæðismarkaði, fari með framkvæmd og samhæfingu húsnæðismála um land allt, auk þess að vera öflugur samstarfsaðili fyrir sveitarfélögin í landinu í tengslum við áætlanagerð þeirra í húsnæðismálum.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi 26. mars síðastliðinn tillögu mína um uppskiptingu Íbúðalánasjóðs á grundvelli tillagna þessa starfshóps. Hinn vinnuhópurinn var svo skipaður í maí á þessu ári til að kanna fýsileika sameiningar Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í kjölfar flutnings málefna sem varða mannvirki og þar með starfsemi mannvirkjastjórnunar undir yfirstjórn félagsmálaráðuneytisins. Niðurstaða starfshópsins var að leggja til að stofnanirnar tvær yrðu sameinaðar. Starfshópurinn taldi að með sameiningu stofnananna mætti ná fram jákvæðum samlegðaráhrifum með breiðari þekkingu og yfirsýn yfir málaflokkinn. Þá taldi starfshópurinn að mögulegt væri að ná fram hagræðingu og bættri nýtingu fjármuna með sameinaðri stofnun. Það varð því niðurstaða starfshópsins að sameining stofnananna tveggja myndi stuðla að betri og öruggari og skilvirkari húsnæðismarkaði fyrir almenning, byggingariðnaðinn, stjórnvöld og aðra haghafa.

Virðulegi forseti. Í samræmi við tillögur framangreindra starfshópa er með frumvarpi þessu lagt til að sett verði ný lög um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Með lögunum verði sameinuð starfsemi Mannvirkjastofnunar og þess hluta Íbúðalánasjóðs sem framkvæmir stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Mannvirkjastofnunar auk þess sem hún tekur við hlutverki, verkefnum og skyldum þess hluta Íbúðalánasjóðs sem tilheyrir rekstri Húsnæðisstofnunar samkvæmt starfsþáttayfirliti í ársreikningi Íbúðalánasjóðs árið 2018. Auk þess tekur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun yfir starfsemi og eignir leigufélagsins Bríetar.

Verkefni hinnar nýju stofnunar eru mörg og mikilvæg. Þannig mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fara með öll þau verkefni sem Mannvirkjastofnun sinnir samkvæmt lögum um mannvirki, lögum um byggingarvörur, lögum um brunavarnir, reglugerð um starfsemi slökkviliða, lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna, raffanga, efnalögum, lögum um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun og lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, auk þeirra verkefna sem Íbúðalánasjóður sinnir samkvæmt lögum um húsnæðismál, lögum um húsnæðisbætur og lögum um almennar íbúðir. Þessu til viðbótar er einnig gert ráð fyrir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli leiða formlegan samráðsvettvang með hagsmunaaðilum á þeim fagsviðum sem undir hann heyra.

Í þessu frumvarpi eru auk ákvæða um sameiningu stofnana lagðar til allnokkrar breytingar á lögum um húsnæðismál sem nauðsynlegar eru vegna breytinga á hlutverki Íbúðalánasjóðs og aðskilnaðar fjárhagslegrar umsýslu eins og ég lýsti áðan. Þá eru í frumvarpinu tillögur að afleiddum breytingum á öðrum lögum. Það er afar mikilvægt við breytingar eins og þær sem hér eru í vændum að hlúa vel að mannauðsmálum innan stofnunarinnar. Hjá þeim stofnunum sem lagt er til að verði sameinaðar í eina er til staðar gífurleg þekking og reynsla á þeim mikilvægu málaflokkum sem falla undir verkefnasvið þeirra. Í frumvarpi til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er gert ráð fyrir að öllum starfsmönnum Íbúðalánasjóðs verði boðið starf hjá nýrri stofnun. Má gera ráð fyrir því að starfsmannafjöldi hinnar nýju stofnunar verði 110. Undirbúningur er þegar hafinn að sameiningu stofnananna tveggja og hefur verið lögð áhersla á þátttöku starfsmanna beggja stofnana og upplýsingar til starfsmanna. Það lá fyrir strax í sumar þegar frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda að tíminn yrði naumur en vegna hagsmuna ríkissjóðs, einkum vegna Íbúðalánasjóðs, er nauðsynlegt að þessi lagabreyting taki gildi sem fyrst eða um áramót, eins og lagt er til með frumvarpi þessu. Þess vegna var skipuð strax í sumar undirbúningsnefnd sem hefur hist reglulega síðan til að undirbúa þau fjölmörgu atriði sem mun þurfa að hafa í huga við sameiningu stofnananna ef þetta frumvarp verður samþykkt á Alþingi. Starfsmenn beggja stofnana eiga sæti í undirbúningsnefndinni auk ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins. Starfsmenn beggja stofnana hafa einnig unnið saman í vinnuhópum vegna ýmissa undirbúningsmála, svo sem um skipurit stofnunar, menningu vinnustaðar, húsnæðismál og fleira. Má segja að mjög góð sátt sé um sameininguna meðal starfsmanna beggja stofnana.

Það er vissulega skammur tími fram undan en vegna þessa góða undirbúnings og með þátttöku starfsmanna stofnananna tel ég að vel muni takast til. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Unnið hefur verið úr þeim athugasemdum sem bárust en auk þess var haft mikið samráð við fjármálaráðuneytið við gerð frumvarpsins, einkum hvað varðar aðskilnað fjármálaumsýslu sjóðsins frá þeirri starfsemi sem snýr að framkvæmd húsnæðismála. Fjármálaráðherra mun á næstunni mæla fyrir frumvarpi um Íbúðalánasjóð þar sem lagður er grunnur að umgjörð sjóðsins sem hefur það hlutverk að draga úr áhættu ríkisins vegna umræddra uppgreiðslumála.

Nauðsynlegt er að vinna að auknu húsnæðisöryggi og stöðugleika á húsnæðismarkaði. Með sameiningu Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs gefst færi á að auka samstarf við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila á sviði húsnæðismála auk þess sem unnt verður að efla stjórnsýslu, stefnumótun og framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála hér á landi.

Með fækkun stofnana og samþættingu verkefna má einnig búast við hagræðingu í rekstri hins opinbera þegar fram líða stundir. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun leika lykilhlutverk við að fylgja eftir stefnu stjórnvalda um lækkun byggingarkostnaðar og aukna uppbyggingu húsnæðis fyrir alla félagshópa. Þetta á stofnunin að gera m.a. með rannsóknum, upplýsingagjöf, lánveitingum og áætlanagerð, auk þess sem stofnuninni er ætlað að tryggja fyrirsjáanleika, skilvirkni og gæði mannvirkjagerðar með eftirfylgni með húsnæðisáætlunum sveitarfélaga, einföldun regluverks og stjórnsýslu byggingarframkvæmda og stuðla þannig að auknu húsnæðisöryggi hér á landi, m.a. með lækkun byggingarkostnaðar. Hin nýja sameinaða stofnun á að geta og mun hafa heildarsýn yfir málaflokkinn og verður því í aðstöðu til að stuðla að skilvirkari áætlanagerð og markvissari eftirfylgni byggingarframkvæmda. Þannig mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geta framkvæmt og fylgt eftir áherslum stjórnvalda í húsnæðismálum hverju sinni og tryggt að þær skili þeim árangri sem stefnt var að.

Ég hlakka til að hlýða á umræður á eftir um þetta mál og að lokinni þeirri umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.