150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir einstaka þingmenn, þeir verða að gera upp hug sinn sjálfir til frumvarpa sem hér eru lögð fram. Ég vil þó segja að ekki er verið að gefa neinn afslátt af því sem lýtur að öryggi borgaranna, brunaeftirliti eða öðru slíku. Það er algerlega skýrt að það mun halda og er frekar hægt að gera það markvissara og gera það skipulagðara í nýrri stofnun.

Þegar kemur að húsnæðismálum annars vegar og byggingarmálum hins vegar eru mikil fagleg samlegðaráhrif þar. Þegar verið var að tala um húsnæðismálin við gerð lífskjarasamninganna var talað um það sérstaklega að verulega skorti á að þessir tveir geirar töluðu saman. Þess vegna var líka, í átakshópi um húsnæðismál, fjallað um byggingar- og mannvirkjamál. Það eru gríðarleg samlegðaráhrif hvað það snertir þar á milli og eins og ég sagði áðan á það að vera eitt af grundvallarverkefnum stjórnvalda hverju sinni að tryggja stöðugleika í framboði á húsnæði. Það hefur okkur Íslendingum ekki tekist en við teljum að öflug stofnun á þessu sviði geti orðið einn liður í þeirri vegferð.