150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir frumvarpi sem felur í sér ákveðna tillögu að gildistöku. Það er í höndum þingsins að taka ákvörðun um það með hvaða hætti því verður háttað. Það hefur ekkert breyst, það hefur alltaf verið í höndum þingsins að taka ákvörðun um það. En það er tillaga ráðherrans hér að gildistakan verði þessi og ég hef fært rök fyrir því að ég telji að svo geti orðið. Það er hins vegar velferðarnefndar að fara yfir það með hvaða hætti því verður háttað. Ég hvet líka til þess að það verði skoðað í því ljósi að á sama tíma erum við að skipta Íbúðalánasjóði upp í ÍL-sjóð og þessa nýju stofnun. Það þarf að skoða það í því ljósi að gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru undir fyrir ríkissjóð að þetta geti tekið styttri tíma en lengri vegna þess að það fjármagn sem þar er er betur komið í fjármálaráðuneytinu en í félagsmálaráðuneytinu eða Íbúðalánasjóði. En það mun auðvitað skýrast með frumvarpi sem fjármálaráðherra kemur með síðar. Ég náði ekki að svara seinni spurningunni en ég geri það í seinna andsvari.