150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég fagna alltaf þegar ríkið gengur á undan með góðu fordæmi og reynir að hagræða í rekstri sínum og vonandi um leið að ná fram bæði aukinni skilvirkni og öflugri stofnunum. Það hefur ítrekað verið bent á það í úttektum fyrir ríkissjóð að við rekum allt of margar stofnanir. Þær eru á bilinu 160–170 stofnanirnar sem ríkið rekur í dag. Æðimargar eða nærri helmingur þeirra að ég hygg eru með færri starfsmenn en 50. Það var m.a. ágætisúttekt sem bæði Viðskiptaráð og samráðsvettvangur um aukna hagsæld unnu á sínum tíma sem benti á að það fer alveg ofboðslega mikill kostnaður hjá 20–50 manna stofnun í það að vera bara til; sinna nauðsynlegri stoðþjónustu eins og bókhaldi, símsvörun, móttöku og öðru slíku einfaldlega til þess að geta verið til sem stofnun. Það þýðir að minna verður eftir fyrir raunverulega starfsemi eða þau verkefni sem stofnuninni er ætlað að sinna. Þess vegna er það fagnaðarefni að hér sé verið að vinna að slíku sameiningarverkefni.

Það verður reyndar að hrósa ríkisstjórninni, þetta er eitt af fyrstu skrefum sem ég hef séð hana taka í þessa átt sem hefur hingað til aðallega vera upptekin af því að stórauka ríkisútgjöld. Eins og við sjáum núna í aðdraganda 2. umr. um fjárlög hafa ríkisútgjöld aukist um 155 milljarða eða munu aukast um 155 milljarða á föstu verðlagi, tæplega 20%, á fyrstu þremur árum þessarar ríkisstjórnar. Það er á sama tíma og viðbótarskattar sem lagðir eru á atvinnulíf og einstaklinga vegna þeirra skattahækkana sem enn eru í gildi eftir hrun eru um 120 milljarðar á ári. Eyðslugleði þessarar ríkisstjórnar hefur valdið því að við getum ekki gripið til nauðsynlegra skattalækkana núna þegar harðnar á dalnum. Liggur beinast við að benda t.d. á bankaskattinn sem við neytendur og fyrirtæki borgum í formi hærri vaxta eða lægri innlánsvaxta hjá fjármálakerfinu, er í raun og veru eins og virðisaukaskattshækkun á almenning ef út í það er farið.

Þess vegna er jákvætt að farið sé í verkefni sem gæti skilað smáhagræðingu og þau mættu vera mun fleiri hjá þessari ríkisstjórn. Það hefur verið allt of lítil og ég myndi segja nær engin áhersla á að auka hagræði í ríkisrekstri á valdatíma hennar hingað til heldur báknið verið blásið út sem aldrei fyrr. Það veldur mér hins vegar vonbrigðum þegar ég horfi á þetta frumvarp að þar eru engin skýr markmið um hagræðingu. Hagræðing gerist ekki af sjálfu sér. Hún verður á grundvelli markvissrar vinnu um það hvernig megi ná fram sparnaði í rekstri viðkomandi stofnunar, nýrrar stofnunar í þessu tilviki. Þar þykir mér heldur lítið í lagt, alla vega í greinargerð með frumvarpinu. Það er ekki að sjá að það sé neitt sérstaklega ofarlega á blaði að sameiningin eigi að skila raunverulegu hagræði. Það er því miður oftast niðurstaðan þegar ríkið sameinar stofnanir að stjórnmálamenn þora ekki að taka hina pólitísku ábyrgð á því að sameining eigi að skila hagræði, að það sé beinlínis skýrt markmið um hversu miklu hagræði hún eigi að skila. Því miður þykir stjórnmálamönnum miklu þægilegra að leggja fram flata hagræðingarkröfu á ríkisrekstur í gegnum fjárlagafrumvarp án þess að tilgreina með hvaða hætti eigi að ná því fram. Það er, myndi ég segja, bara pólitískt hugleysi því að hagræðingarkrafa á ríkisrekstur, þar sem um 70% af kostnaði ríkisins er launakostnaður, þýðir auðvitað að segja þarf til hvar eigi að ná þessu hagræði fram, ekki bara varpa því blindandi á allar stofnanir og allan rekstur ríkisins án nokkurrar forgangsröðunar eða án nokkurrar leiðbeiningar um það hvar eigi að sækja hagræði að neinu marki. Þess vegna eru það auðvitað vonbrigði að horfa á það í máli sem þessu, þar sem einmitt er rakið tækifæri til þess að efla þjónustu en um leið ná fram skýru og markvissu hagræði með sameiningu í rekstri, að ekki er að finna neina slíka leiðbeiningu sem heitið getur, alla vega í greinargerð með frumvarpinu.

Það verður líka að horfa til þess að það felst í því ákveðið virðingarleysi gagnvart Alþingi að koma fram með þetta frumvarp um miðjan nóvember og ætla því að taka gildi fyrir árslok og að sameinuð stofnun taki til starfa eftir röskar sex vikur. Það er ekki mikill tími sem þingið fær til þess að vinna málið til að kanna hvort það megi með einhverjum hætti bæta úr eða styrkja áform ráðherra í því efni.

Ég fagna hins vegar orðum hæstv. ráðherra um að nefndinni sé í sjálfsvald sett hvort hún fresti gildistöku laganna, sem ég held að hljóti að verða eitt fyrsta álitaefnið hjá hv. velferðarnefnd þegar málið kemur þar til skoðunar, að gefa því þann tíma sem nauðsynlegt er til að skerpa á markmiðssetningu með sameiningunni en tryggja líka að það sé búið að undirbúa hana nægilega vel þannig að þau markmið nái fram að ganga. En það er varla hægt að ætlast til þess að ráðherra sé tekinn alvarlega með áform sem þessi þegar þinginu eru gefnar, við getum sagt þrjár vikur umfram hefðbundinn umsagnarfrest í málum, til að vinna það og klára og tryggja að gildistaka gangi eftir og ný stofnun geti tekið til starfa um áramót.