150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hafði hug á því áðan að komast í andsvar við ráðherrann en það tókst ekki þannig að ég ákvað að koma með hugleiðingar mínar í ræðu. Ég vona að ráðherra sjái sér fært að svara einhverju af því sem ég set fram. Í 3. gr. frumvarpsins segir um verkefni, með leyfi forseta:

„Um verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fer samkvæmt lögum um mannvirki, lögum um húsnæðismál, lögum um almennar íbúðir, lögum um húsnæðisbætur, lögum um byggingarvörur, lögum um brunavarnir, reglugerð um starfsemi slökkviliða …“

Í 2. gr. segir um hlutverkið, með leyfi forseta:

„Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði húsnæðismála, mannvirkjamála og mála er varða byggingarvörur og brunavarnir …“

Hér segir svo item á bls. 7, með leyfi forseta:

„c. 5. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Helstu verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt lögum þessum eru:

1. að tryggja samræmingu á byggingareftirliti og eldvarnaeftirliti og starfsemi slökkviliða um land allt í samráði við viðkomandi stjórnvöld …“

Síðan segir á bls. 13 í greinargerð, með leyfi forseta:

„Stofnunin stendur einnig fyrir námskeiðum til réttinda fyrir hönnuði og byggingarstjóra og veitir hönnuðum, iðnmeisturum og slökkviliðsmönnum löggildingu.“

Að síðustu er á bls. 23 mikil upptalning um 3. gr. sem ég ætla ekki að fara í um verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þar er talað um reglugerð um starfsemi slökkviliða, lög um brunavarnir og þetta sem ég fór með áðan, en svo kemur að lokum ein setning, með leyfi forseta:

„Verkefnin eru óbreytt.“

Þannig hagar til, herra forseti, að Mannvirkjastofnun löggildir ekki slökkviliðsmenn á flugvöllum og nú hefði verið úrvalstækifæri til að bæta úr því. Fyrst verið er að breyta þessum lögum hefði verið úrvalstækifæri til að breyta því fyrirkomulagi. Sá sem hér stendur fer örugglega síðar á þinginu nánar yfir brunavarnir á flugvöllum yfirleitt, sérstaklega á alþjóðaflugvellinum í Keflavík. Þar er enginn löggiltur slökkviliðsmaður nema kannski ein og ein eftirlegukind sem fyrirtækið sem rekur völlinn er að reyna að ýta út. Að öðru leyti starfa ekki löggiltir slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli. Þetta er óþolandi staða, herra forseti, og því finnst mér mikill ábyrgðarhluti að nú, þegar lögum um Mannvirkjastofnun er breytt, skuli þetta atriði ekki vera tekið með. Ég vil trúa því að þetta sé einhvers konar gleymska. Það getur ekki verið ásetningur hjá hæstv. ráðherra að þetta eigi að vera svona áfram. Ég get ekki trúað því. Eins og menn vita höfum við að undanförnu orðið fyrir seinkunum og breytingum á flugi til Íslands, m.a. af því að slökkviliðin eru ekki tilbúin. Það er mikill ábyrgðarhluti að taka þetta atriði ekki fyrir þegar þessi lagabreyting á sér stað. Þess vegna beini ég því til hæstv. ráðherra að hann annaðhvort komi í pontu og segi að ég vaði reyk í þess orðs fyllstu merkingu eða að hann ætli að breyta þessu. Ég get ekki trúað því að hæstv. ráðherra hafi gengið svona fram með opin augun og ætli að láta þetta ástand vara áfram án þess að taka á því. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því hér hvort hann hyggist breyta því fyrirkomulagi sem er í þessu lagafrumvarpi og/eða að hann komi hingað og sannfæri þann sem hér stendur um að hann hafi rangt fyrir sér og að þetta sé allt í hinu besta lagi.

Eftir því sem ég hef kynnt mér mjög víða í þessu kerfi held ég að það sé samdóma álit þeirra sem vinna undir þessum reglum að það sé algjörlega óþolandi að slökkviliðsmenn á flugvöllum skuli ekki fá löggildingu þannig að þeir séu þá hliðsettir öðrum slökkviliðsmönnum, ekki bara út frá ábyrgð heldur einnig launum, þeir séu í einu stéttarfélagi og að sömu reglur gildi um þá hvað varðar þjálfun og annað, t.d. í reykköfun.

Þetta eina atriði er nóg til að fella frumvarpið.

Síðan er annað sem blasir við. Ég veit ekki af hverju mönnum liggur svona lifandis ósköp á eins og fleiri hafa bent á. Það er kannski ein af ástæðum þess að hér er kastað til höndunum, mönnum liggur svona lifandis mikið á að þeir hafa ekki gefið sér tíma til að lesa þau lög og þær reglugerðir sem gilda og ákveðið að láta vaða á súðum. Það er stundum gott þangað til kemst upp eða eitthvað kemur fyrir. Að öðru leyti er mér náttúrlega algjörlega hulin þörfin á þessum rosalega hraða. Það er kannski rétt að breyta Íbúðalánasjóði þannig að menn geti klórað þar yfir einhver spor yfir hluti sem þeir hafa ekki viljað gefa upp. Það er kannski ein ástæðan. Það á samt ekki að koma niður á öryggi.

Það kemur líka fram að það á enginn sparnaður að verða af þessu og þá spyr maður: Er það ekki lykilatriði þegar við sameinum ríkisstofnanir, fyrir utan að þær fái slagkraft og allt þetta, að það verði hagræðing í starfseminni? Því virðist ekki svo farið um þetta.

Þetta er út af fyrir sig það atriði sem ég hefði viljað draga hér fram. Mér þykir það nokkuð alvarlegt, herra forseti. Geti ráðherrann komið hingað upp og sannfært mig um að þetta geti gengið eins og hér er sett fram er það flott. Ég hef ekki trú á því en helst af öllu hefði ég viljað að hæstv. ráðherra kæmi hingað og segði okkur að hann ætlaði að standa við það sem stendur í lögunum, að slökkviliðsmenn eigi að fá löggildingu.

Svar óskast.