150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í mínu fyrra andsvari hvað varðar ýmsar athugasemdir sem ekki lúta beint að sameiningu þessara tveggja stofnana, frumvarpið fjallar fyrst og síðast um það, hlýtur að vera sjálfsagt mál að skoða það í meðförum þingsins hvort hægt sé að gera einhverjar breytingar á frumvarpinu til að tryggja enn betur öryggisþætti í mannvirkja- og brunavarnamálum og fleiru sem heyrir undir þessa nýju stofnun og því sé enn betur fyrir komið. Allar ábendingar um það hljóta að vera vel þegnar. Ég skil ekki þá gremju og biturð sem er í hv. þingmanni gagnvart svörum mínum áðan vegna þess að ég tók einmitt vel í það að skoða þessa þætti en benti á hið augljósa, sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu, að almennt er búið vel um hnútana varðandi þá þætti sem flokksfélagi hans gagnrýndi hér fyrir tíu mínútum, að það væri bara eins og verið væri að leggja niður allt eftirlit með þessum málum, öryggismálum og öðru slíku. Það var einfaldlega það sem ég benti á, tók síðan vel í ábendingar hv. þingmanns. Ég skil nú ekki gremjuna yfir því að tekið sé vel í það sem hv. þingmaður leggur fram því að það gerist ekki svo oft.