150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[17:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta og hvet nefndina til þess að skoða það. Hann nefndi akkúrat þá fjóra aðila sem mér þykja eiga og þurfa að halda utan um þessar upplýsingar, þ.e. þjóðskrá, Hagstofan, Tryggingastofnun og skatturinn. Maður skilur hvers vegna þessi kerfi þurfa öll að spila saman. En það er mjög dýrt í öllum stofnunum og fyrirtækjum að búa til gagnagrunna og viðhalda þeim og öðru slíku. Það þekkjum við. Þess vegna er ég líka að velta fyrir mér að við erum með til þess að gera litlar einingar víða sem eru kannski veikburða og meira að segja getum við talað þannig um Hagstofuna sem slíka, hún er í sjálfu sér ekki eins burðug og mér fyndist að hún ætti að vera. Til þess þurfum við í rauninni að fá henni enn þá fleiri og stærri verkefni. Það sé ekki þannig að þekking hverfi ef einn starfsmaður hættir eða eitthvað slíkt. Það er kannski það sem mér hefur fundist við búa töluvert við hér á landi. Í gegnum árin hér á þingi þegar maður tekur fyrir hin ýmsu mál finnst mér það alltaf verða meira og meira áberandi að við þurfum að huga betur að því að sérstaklega þeir aðilar sem eru að safna tölfræðilegum gögnum hafi almennilegt „kapasítet“ til þess.