150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[17:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Sem fyrrum útvarpskona ætla ég ekki að segja „þættinum hefur borist bréf“ heldur „Alþingi hefur borist stjórnarfrumvarp“. Það telst nefnilega til tíðinda á þessu haustþingi að Alþingi berist stjórnarfrumvarp og verðum við nefndarfólk í velferðarnefnd að gleðjast því að þetta er annað stjórnarfrumvarpið sem berst hv. velferðarnefnd. Fögnum við því, enda er farið að líða að jólum, borgin hér í kringum Alþingishúsið farin að skrýðast jólaskrauti og gott ef það er ekki búið að boða til fundar með jólakettinum á Lækjartorgi um næstu helgi. Ég verð að fagna því að það sé komið frumvarp frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra en verð þó að segja að mér þykir sá tímarammi sem velferðarnefnd er gefinn helst til naumt skammtaður. Hefðbundinn umsagnarfrestur á frumvörpum og öðrum þingmálum er þrjár vikur og þegar umsagnarfresti lýkur eru níu dagar, eða held ég fimm fundardagar, eftir fram að jólahléi, þar af tveir fundardagar hjá hv. velferðarnefnd til að taka inn gesti fyrir þetta mál, ræða málin og afgreiða, ef svo verður, vegna þess að það er nú þannig, herra forseti, að hefðbundnir nefndarfundir fyrir sumar- og jólahlé falla oft niður hjá nefndunum í síðustu vikunni fyrir jól. Ég sé því a.m.k. ekki að það ákvæði þessa frumvarps sem lýtur að gildistöku muni komast óbreytt í gegn á þessu haustþingi.

Þá að innihaldi frumvarpsins. Ég verð að fagna því að það eigi að efla stjórnsýsluna þegar kemur að mannvirkjum og húsnæðismálum en verð þó að spyrja: Af hverju er farin þessi leið? Miðað við umræðuna sem hefur verið hér í dag finnst mér eins og tilgangurinn sé göfugur en útfærslan kannski ekki alveg fullnægjandi. Það er gott að hafa samlegðaráhrif milli Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs en þegar frumvarpið er lesið má sjá að það á samt sem áður að plokka Íbúðalánasjóð í sundur. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort þetta verði til þess að húsnæðismálin verði í betri höndum, hvort húsnæðismálunum sé einhver greiði gerður með þessu. Ég er ekki alveg sannfærð um það og er langt í frá sannfærð eftir að hafa hlustað á hæstv. ráðherra ræða málin og heldur ekki eftir að hafa heyrt í nokkrum starfsmönnum Mannvirkjastofnunar sem óttast að sameiningin muni koma niður á hinu gríðarlega mikilvæga hlutverki Mannvirkjastofnunar sem er að hafa eftirlit með mannvirkjagerð á Íslandi. Ég óttast líka ákveðið hringl, að verkefnin og hlutverk verði óskýr, að skilvirkni verði ekki meiri o.s.frv. Ég óttast að þetta komi niður á fagmennskunni og tek þannig undir nokkrar umsagnir sem bárust inn á samráðsgáttina um að öryggi kunni að verða ábótavant. Það voru Samtök rafverktaka sem bentu á þetta og Neytendastofa hafði sömuleiðis áhyggjur af því að eftirlit yrði minna.

Svo er ekkert rætt um gagnsæi í frumvarpinu. Ég mun tryggja að hv. velferðarnefnd fari ofan í hvernig eigi að tryggja að störf innan húss í þeirri stóru stofnun sem á að taka við öllum þessum verkefnum verði gagnsæ. Þegar var verið að færa húsnæðismálin undir félagsmálaráðherra komu talsmenn Mannvirkjastofnunar og töluðu um að það væri óheppilegt að þetta væri enn þá á víð og dreif, hvers vegna mannvirkjagerð og húsnæðismál væru ekki öll í einu fagráðuneyti eins og þekkist t.d. á Norðurlöndunum, því að skipulagsmálin eru enn þá hjá sveitarstjórnarráðherra. Það er óheppilegt að þetta sé á þessum stöðum. Þá er líka óheppilegt að kæruleiðir virðast áfram vera á þremur stöðum, hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefnd velferðarmála og svo hugsanlega hjá ráðuneytinu.

Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því, af því að verið er að tala um hvort það verði hagræði af þessu og hefur verið talað um að svo verði, að gert er ráð fyrir að starfsmenn verði nákvæmlega jafn margir og þeir eru núna hjá Íbúðalánasjóði annars vegar og Mannvirkjastofnun hins vegar, að starfsmenn hinnar nýju stofnunar, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, verði 110 talsins sem er nákvæmlega sama tala og núna, það verður ekki einu sinni fækkun sem nemur einum forstjóra. Það á hins vegar að skipta upp Íbúðalánasjóði og færa hluta hans þannig að sá hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs sem snýr að útgáfu skuldabréfa Íbúðalánasjóðs, eldri lánastarfsemi og fjarstýringu eigna utan lánasafn, svo sem lausafjár og annarra verðbréfa, verði eftir í Íbúðalánasjóði sem mun fá nafnið ÍL-sjóður. En með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót ný stofnun sem heitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þessi ÍL-sjóður fer annað. Hann mun fara inn í fjármálaráðuneytið og mun fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram frumvarp um þann hluta. Þá er maður kominn á sama stað og við erum á núna, þ.e. á 149. löggjafarþingi var ákveðið að skipta upp velferðarráðuneytinu í félagsmálaráðuneyti annars vegar og heilbrigðisráðuneyti hins vegar. Svo er verið að færa til málaflokka og allt átti þetta að vera óskaplega ódýrt og kosta í rauninni ekki neitt. En hvað kemur í ljós? Það er verið að setja á laggirnar endalausar skrifstofur inni í ráðuneytunum, færa til, búa til nýtt, ráða urmul af starfsfólki, þannig að á endanum er þetta miklu dýrara. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna við ætlum að hafa þetta svona. Það að setja helminginn af verkefnum Íbúðalánasjóðs inn í fjármálaráðuneytið mun ekkert vera ókeypis. Það þarf þá að ráða starfsfólk þangað inn til þess að sinna þeim þætti en ekkert af fólkinu sem er hjá Íbúðalánasjóði núna á að fara þangað. Það á allt að vera inni í nýju stofnuninni, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ég held að við séum enn einu sinni að horfa upp á að það verði aukinn kostnaður með þessum tilfærslum sem samt eru einhvern veginn ófókuseraðar. Við hljótum að vilja einfalda stjórnkerfið en ekki búa til ógnarstóra stofnun sem mögulega veikir eftirlitskerfið og sjá ekki að það sé neitt skilvirkara eða meiri fagmennska. Það er það sem ég hef áhyggjur af.

Ég hef áhyggjur af því að það eigi að splitta upp Íbúðalánasjóði því að mér finnst það ekki vera nógu vel ígrundað í frumvarpinu. Það getur vel verið að það skýrist við meðferð málsins í hv. velferðarnefnd. En aftur segi ég að það er mjög jákvætt að styrkja stjórnsýslu og við þurfum klárlega að styrkja eftirlitskerfið, sem hefur ekki beint verið áhugamál ríkisstjórnarinnar. Ég held að veikt eftirlitskerfi á öllum sviðum íslensks samfélags grafi undan trúverðugleika okkar og búi til vantraust á kerfinu öllu. Við sjáum víða hvernig hvernig það birtist, hvort sem um er að ræða að hafa eftirlit með skattinnheimtu eða veiði. Þegar dregið er úr slíku eftirliti, eða hvaða eftirliti sem er, veikir það tiltrú almennings á kerfinu.

Annars hlakka ég til að vinna að málinu í hv. velferðarnefnd og vona að það komi eitthvað jákvætt út úr því, þótt ég lofi ekki neinni hraðsuðu við vinnslu þessa frumvarps.