150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það hlýtur auðvitað að vera lágmarkskrafa á fjármálaráðuneytið að það áætli hver hlutur sveitarfélaga verði í þessu óvissusvigrúmi á því ári sem við erum að ljúka áður en fjáraukalög eru lögð fram sem ganga jafn nærri því. Gert er ráð fyrir 0,8% óvissusvigrúmi, ríkissjóður ætlar sér að nýta 0,5% og árið ekki fulluppgert enn þá. Sveitarfélögin hafa verið rekin með tapi undanfarin ár og engin ástæða til að ætla annað en að þessi niðursveifla hafi líka neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélaganna. Tap þeirra á síðasta ári var 10 milljarðar, ef ég man rétt, sem er 0,3% af landsframleiðslu. Það þýðir að við erum þegar komin í ystu mörk þessa óvissusvigrúms. Það getur ekki verið ástæða til annars en að fjármálaráðuneytið áætli það áður en fjáraukalög sem þessi eru lögð fram. Það er hins vegar óháð mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að staðreyndin er einfaldlega sú að við erum með fordæmalaust hagvaxtarskeið að baki þar sem ný útflutningsatvinnugrein fæddist með gríðarlega miklum tekjum sem heitir ferðaþjónusta og samt sem áður erum við með skattlagningu í sögulegu (Forseti hringir.) hámarki í boði núverandi ríkisstjórnar sem hefur eytt hverri einustu krónu sem hefur runnið inn í kassann.