150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

rekstraraðilar sérhæfðra sjóða.

341. mál
[19:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er tiltölulega stórt og veigamikið frumvarp. Það tekur til margs og svolítið strembið er að setja sig inn í það. En mig langar til að nýta tækifærið og spyrja örfárra spurninga til að geta áttað mig betur á þessu. Fyrsta atriðið er: Þar sem þetta er Evrópulöggjöf og á fyrst og fremst við um stærri sjóði á Evrópusvæðinu, þ.e. í Evrópu utan Íslands, velti ég fyrir mér hversu margir sjóðir það séu á Íslandi sem falli þar undir og ekki síst hversu margir sjóðir myndu falla undir 7. gr., sem er undantekning fyrir smærri sjóði svo þurfi eingöngu að tilkynna sig frekar en að sækja um starfsleyfi, ef ég skil þetta rétt.

Svo langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort til greina hafi komið að fara sömu leið og Liechtensteinar og gera meiri kröfur varðandi starfsleyfi en gerð er beinlínis krafa um samkvæmt þeim tilskipunum og reglugerðum sem frumvarpið byggir á. Ef ekki, hvaða ástæður lágu þá þar að baki? Nú er Liechtenstein land með töluvert stóran fjármálageira og hefur eins og við lent á gráum lista hjá FATF í fyrndinni eða fyrir nokkrum árum. Það er kannski ástæða til að líta til þeirra þegar þeir eru að setja strangari reglur en almennt gilda í Evrópu um fjármálaregluverk.