152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

húsnæðisliður í vísitölunni.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að nefna það sérstaklega sem hún kom að í upphafi máls síns er varðaði húsnæðisliðinn. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að gefin var yfirlýsing um að húsnæðisliðurinn í vísitölunni skyldi tekinn til skoðunar á síðasta kjörtímabili í tengslum við lífskjarasamninga. Það var gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins sem höfðu sett þetta mál fram, þ.e. verkalýðshreyfingin hafði sérstaklega haldið því máli á lofti. Það var fallið frá því að taka hann út úr vísitölunni og fyrir því voru veigamikil rök sem var farið yfir í mjög ítarlegri skýrslu um húsnæðisliðinn. Það má deila um hvernig hann er reiknaður inn í vísitöluna en kannski, ef ég tek þetta í mjög einföldu máli á þessum stutta tíma, var talið að í fyrsta lagi væri það í raun almennt að húsnæðisliður væri inni í vísitöluútreikningum landa, hann er reiknaður með mismunandi hætti en almennt er hann það, og eins að það myndi ekki gefa raunsanna mynd af vísitölunni ef húsnæðisliðurinn væri tekinn út. Þetta var því ákveðið í mjög góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. En það er hins vegar hárrétt, sem hv. þingmaður segir, hluti af þeirri verðbólguþróun sem við sjáum núna er drifinn áfram af verðlagi á húsnæði. Hluti er drifinn áfram af innfluttri verðlagsþróun, má kalla, því að við sjáum verðbólguþróun með nákvæmlega sama hætti, hvort sem litið er vestur um haf til Bandaríkjanna, þar sem verðbólgan er núna 7%, sem er hæsta verðbólga þar í landi síðan 1981, eða til Evrópu. Tökum bara sem dæmi Þýskaland sem er þekkt fyrir stöðugt verðlag, verðbólgan þar mældist 5,3% nú í desember. Hluti tengist einfaldlega hækkunum á hrávöruverði sem hafa áhrif á verðlagsþróun. Það breytir því ekki að ákveðinn hluti tengist þróun á húsnæðismarkaði og ég ætla að koma nánar að því í síðara svari mínu.