152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

afstaða ráðherra til sóttvarnaaðgerða.

[15:17]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og gleðst yfir því að fá tækifæri til að fara yfir þetta mál þótt ég, eins og örugglega flestir aðrir, sé orðin mjög leið á því að tala um það. Ég gleðst þess vegna líka yfir þeim teiknum, gögnum, ekki bara vísbendingum heldur tölum, staðreyndum og orðum sem streyma um að við séum á leiðinni út úr Covid-faraldrinum eins og við höfum þekkt hann og að ómíkron-afbrigðið, sem nánast allir eru að smitast af í dag, sé í raun og veru annars eðlis heldur en það sem áður hefur verið. Ég hef sagt það margoft og ítreka það hér að mér finnst þau skoðanaskipti sem birtast við ríkisstjórnarborðið, inni á fundum, úti á tröppum, í viðtölum og annars staðar einfaldlega heilbrigð. Mér finnst það styrkleikamerki frekar en veikleikamerki og mér finnst ágætt að það sé eitthvert pláss og svigrúm fyrir slíkar spurningar og fyrir slíkt samtal. Mér finnst okkur í ríkisstjórninni líka hafa gengið ágætlega að geta tekist á og geta átt samtal og stundum verið ósammála um eitt stærsta verkefni sem ríkisstjórn og samfélag hefur þurft að takast á við. Ég hef sjálf reynt að tala af yfirvegun um þessi mál. Ég er ósammála þingmanninum um að þetta sé framlengingaráætlun. Þetta er hrein og klár afléttingaráætlun sem ég vonast þó til að hægt verði að taka í stærri skrefum ef við höldum áfram að sjá þá þróun sem blasir við okkur nú. Það skiptir líka máli að við sýnum því skilning að við erum á mismunandi stað gagnvart þessu. Við erum líka sem fólk í þessu landi missmeyk gagnvart þessum sjúkdómi og þessu verkefni. Að því leytinu til reyni ég að sýna því skilning að við séum missmeyk og við þurfum mislangan tíma til þess að (Forseti hringir.) vera viss í þeirri trú að þetta sé allt að verða búið eins og við höfum þekkt það. (Forseti hringir.) Og ég trúi því svo sannarlega.