152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun og ráðherraábyrgð.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja, um það mál sem hv. þm. Arndís Anna Gunnarsdóttir tekur upp, að ég er þeirrar eindregnu skoðunar að þetta sé mjög mikilvæg heimild sem er í lögum um ríkisborgararétt, þar sem segir í 6. gr. að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum. Ég veit að einhverjir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa haft á því aðra skoðun en ég hef hreinlega alltaf talið það hluta af hlutverki Alþingis að geta stigið inn í með þessum hætti og veitt ríkisborgararétt með lögum.

Ég hef skilið þetta mál þannig, út frá umræðu sem ég hef hlýtt á hér í þingsal, að forseti þingsins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar hafi tekið undir þennan skilning á lögum og hafi boðað að stigið yrði inn í þessi mál þannig að tryggt verði að lagaskyldu yrði fylgt. Ég tel hana algjörlega skýra því eins og hv. þingmaður nefnir þá segir hér að Útlendingastofnun skuli þá undirbúa þessar umsagnir með því að fá umsagnir lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og gefa síðan umsögn til þingsins um umsóknina. Lagagreinin getur því ekki verið öllu skýrari.

Af því að hv. þingmaður spyr um mína afstöðu þá tel ég það algjörlega skýrt að ráðherrar eigi að fylgja lögum eins og aðrir landsmenn.