152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

forsendur sóttvarnatakmarkana.

[15:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta er auðvitað mikilvægt og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur hér átt reglubundið samtal við þingið og er vafalaust tilbúinn til að mæta líka á fundi velferðarnefndar til að fara yfir þessi mál. Ég get upplýst hv. þingmann um það að við höfum haldið með reglulegu millibili fundalotur í ráðherranefnd um samræmingu mála þar sem við kölluðum til fleiri sérfræðinga, ekki bara lögfræðinga heldur líka sérfræðinga á sviði heilbrigðismála, og hægt er að fá gögn um þá fundi hvenær sem er. Stóra myndin í þessu, herra forseti, þegar við berum þetta saman — og það hef ég gert núna reglulega, ég hef með vikulegu millibili tekið stöðuna á Íslandi miðað við önnur nágrannalönd, bæði hvað varðar þær ráðstafanir sem eru í gildi og þann árangur sem við höfum náð í baráttunni við faraldurinn. Hvernig sem ég sný þeim teningi þá eru dauðsföllin fæst hér, hlutfall bólusetninga hefur verið hvað best hér, árangur efnahagslegra aðgerða hefur verið hvað bestur hér og ráðstafanir oft verið töluvert mildilegri en í löndunum í kringum okkur. Og ég tek skólana sem dæmi. (Forseti hringir.) Auðvitað á eftir að gera þetta allt upp síðar meir en þetta höfum við reynt að gera með reglubundnum hætti við ríkisstjórnarborðið. (Forseti hringir.) Ég held að það skipti einmitt máli að horfa á þennan alþjóðlega samanburð þegar við gerum þetta upp. Ég hef ekki áhyggjur af því (Forseti hringir.) hvernig Ísland mun koma út í þeim samanburði.