152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil aðeins minna á að samningurinn við Myndlistarskólann er runninn út. Síðan vil ég beina því áfram til hæstv. ráðherra að það skiptir líka mögulega máli hvernig lagaumhverfið er. Koma framhaldsskólalögin hugsanlega til endurskoðunar til þess að liðka fyrir námsframboði þessara ungmenna þannig að við getum formgert betur þann möguleika sem þau verða að hafa til þess að geta náð inn á áhugasvið sitt eftir eigin getu í samræmi við námskrá? Getum við skoðað þetta betur, t.d. listgreinarnar innan framhaldsskólanna eða önnur þau svið þar sem þau geta plumað sig hverju sinni, sem getur gert þau enn betur í stakk búin til að takast á við ákveðna hluti úti í atvinnulífinu og þannig að þau geti lagt sitt af mörkun í þágu atvinnulífs, í þágu samfélags? Mig langar að fá að vita hvort það sé möguleiki.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái það fyrir sér að tala við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og skoða hvort hún sé tilbúin til þess að koma í ríkara mæli að Fjölmennt. Ég tel líka mikilvægt að undirstrika að breytingar á framhaldsskólanum er leið sem getur skapað ótrúlega mörg tækifæri og lífsgæði fyrir ungt fatlað fólk. Þess vegna vil ég brýna hann til að koma með endurskoðun á framhaldsskólalögunum. Ég hef hins vegar áhyggjur af því eftir uppstokkun ráðuneyta að nú sjáum við að námsframboð þessa viðkvæma hóps, annars vegar á háskólastigi og hins vegar fullorðinsfræðslu, mun í rauninni dreifast á þrjú ráðuneyti. Við erum með barna- og skólamálaráðuneyti, síðan með háskólaráðuneyti, sem á þá að taka við námsframboðinu fyrir þennan hóp þar, og síðan erum við með fullorðinsfræðsluna sem er, miðað við orð ráðherra, núna komin yfir til félagsmálaráðherra. Það má ekki gerast að þessi viðkvæmi hópur falli milli skips og bryggju.

Ég vil brýna ráðherra í að koma með þetta sem fyrst hingað inn, skýrsluna og aðgerðir, aðgerðaáætlun. Og svo að lokum legg ég til að við förum að klára samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.