152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég lagði fram þessa fyrirspurn um þjóðarhöll og þjóðarleikvang í byrjun desember. Þetta var eitt af mínum fyrstu þingmálum á þessu kjörtímabili og þar spyr ég: Hvað líður því að við fáum hér nýja þjóðarhöll sem er svo sannarlega mikilvægt að við fáum sem allra fyrst? Eins og við þekkjum er Laugardalshöllin, að mínu mati, einstaklega fallegt mannvirki en hún er barn síns tíma. Hún uppfyllir ekki þær þarfir og þær kröfur sem gerðar eru til nútímaíþrótta í dag. Mér finnst heppilegt að þessi fyrirspurn komi einmitt á fyrsta þingdegi eftir að stórkostlegu Evrópumóti í handbolta er lokið úti í Búdapest og ég vil þakka ráðherra sérstaklega, sem er mikill íþróttaáhugamaður, fyrir að vera þarna úti til að hvetja strákana og fylgjast með strákunum okkar, það eru margir sem vanmeta það. Það skiptir máli að áhugi íþróttamálaráðherra hverju sinni sé til staðar en líka að fólk skilji umgjörðina og skynji hana. Ég veit að hann var í þessari stórkostlegu höll sem við vorum í, höll sem tekur 21.000 manns, og hún var byggð á einu og hálfu ári, á 18 mánuðum. Ég hef áður bent á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, hvað hún er sein í Covid-málum. Hér á árum áður, fyrir rúmlega öld, byggðum við Íslendingar Vífilsstaðaspítala fyrir berklasjúklinga á innan við tveimur árum þannig að við getum alveg gert þetta. Ungverjar tóku þessa ákvörðun. Þeir tóku líka ákvörðun um aðra höll, 8.000 manna höll fyrir Pick Szeged‎, sem er eitt af stóru liðunum í Ungverjalandi, annars vegar Veszprém í handbolta og Pick Szeged‎ hins vegar, þeir spila sína heimaleiki þar.

Þetta snýst á endanum um ákvörðun, um að vilja raunverulega styðja við okkar þjóðaríþrótt, handboltann, styðja við körfuboltann og styðja við þessar íþróttagreinar sem skipta okkur sem þjóð svo miklu máli og ég veit að hugur ráðherra stendur til þess. Við vitum líka að við erum á undanþágu bæði í körfunni en líka handboltanum. Ég get ekkert sérstaklega hugsað mér það núna, nokkrum dögum eftir leik við Dani, að við ættum hugsanlega að fara að spila okkar landsleiki í Danmörku. Nei, takk, segi ég, sama þó að mér þykir afar vænt um vini okkar Dani og beri mikla virðingu fyrir þeirra frábæru menningu, ekki síst þegar kemur að handboltanum. Við erum búin að eiga nóg af hópum, nefndum, skýrslum, ráðum — allt liggur fyrir, það þarf bara að taka ákvörðun og það þarf að taka ákvörðun núna. Það hefur verið mjög einfalt fyrir ríkisstjórnina að taka mjög snögglega ákvarðanir. Það liggja engar skýrslur fyrir, hópar eða nefndir um að setja 2 milljarða á kjörtímabilinu í uppstokkun á ráðuneytum. Hér liggur hins vegar allt fyrir. Það er allt skýrt. Þess vegna snýst þetta um pólitískan vilja. Reykjavíkurborg er tilbúin með skipulagið. Ég veit að nærsveitarfélög munu hugsanlega líka vera tilbúin til að gera þetta. (Forseti hringir.) Það er allt tilbúið. Nú er boltinn, hinn góði bolti, hjá ríkisstjórninni og ég vona að hún tali skýrt.