152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:11]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja að jafnvel þótt við hefðum unnið Dani hefði ég heldur ekki viljað spila landsleikinn í Danmörku, svo að því sé algjörlega haldið til haga. Það er auðvitað þannig með þessi verkefni, eins og þingmaðurinn rakti hérna og gerði það vel, að farið hefur fram á síðustu árum talsvert mikil vinna og samtal á milli stjórnvalda og íþróttahreyfingarinnar um framtíðarfyrirkomulag þessara mála; hvaða þjóðarleikvanga þurfi, hver væntanleg þarfagreining sé varðandi stærð o.s.frv. Ég vil nú meina að það samtal sem átt hefur sér stað hafi skilað talsvert miklu í því að mér finnst íþróttahreyfingin sjálf líka vera komin svolítið á þá blaðsíðu að vera búin að kjarna þetta. Menn eru að tala um eina þjóðarhöll fyrir inniíþróttir, eins og þingmaðurinn kom að, oft og tíðum talað um það út frá körfuknattleik og handknattleik. Síðan er verið að tala um þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu og í þriðja lagi fyrir frjálsar íþróttir.

Ég held að það sé alveg rétt, sem þingmaðurinn rakti, að þörfin er kannski orðin hvað áþreifanlegust þegar kemur að inniboltaíþróttunum sem eru körfuknattleikur og handknattleikur. Laugardalshöll er þar á undanþágu og raunar hef ég heimildir fyrir því að það að landsleikir sem fara áttu fram í körfuknattleik og urðu að fara fram í Kópavogi hafi hreyft þannig við mönnum innan FIBA, Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, að menn hafi verið að velta því fyrir sér að afturkalla undanþáguna gagnvart Laugardalshöll af því að ekki væri nægileg hreyfing á málinu. Það skynja þannig allir þrýstinginn sem er á því.

Ég vil líka segja, af því að þingmaðurinn talaði um að þetta þingmál hefði verið fyrsta málið sem hún lagði fram á þessu kjörtímabili, að fyrsti fundurinn sem ég tók á þessu kjörtímabili var einmitt um þjóðarleikvanga, til þess að átta mig á því hver næstu skref gagnvart málinu væru, hvernig við gætum hreyft málið sem hraðast áfram. Það er engu að síður svo að ríkið þarf að eiga samtal við Reykjavíkurborg um þessi mál og við íþróttahreyfinguna. Hvar á að byrja? Með hvaða hætti? Nú er búið að skipa af hálfu ríkisins ákveðinn stýrihóp sem á að fara í þetta með fulltrúa frá mennta- og barnamálaráðuneyti, frá forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Það hafa átt sér stað samtöl við borgina. Ég hef átt fundi, bæði formlega og óformlega, með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og við erum sammála um að fara af stað í þetta samtal um kostnaðarskiptingu, hvernig henni verði háttað, hönnun mannvirkjanna og endanlega staðsetningu. Það er vinna sem nú er að fara af stað, ekki til að greina hvort fara eigi í þessi verkefni heldur hvernig og hvernig við getum komið því sem hraðast af stað. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað, af því að það hefur verið reynt að reka fleyg á milli ríkis og borgar í því, af samtölum mínum við Reykjavíkurborg, en að þar standi fullur hugur á bak við að finna lausn í þessu efni, af því að þetta er sameiginlegt verkefni. Við erum líka að tala um kostnaðarþátttöku borgarinnar í þessu verkefni. Af því að hv. þingmaður nefndi nágrannasveitarfélög sem möguleika þá er eðlilegt að fara í samtal af heilum hug við borgina. Við sjáum að sveitarfélög eru að bjóða lóðir jafnvel á Stór-Reykjavíkursvæðinu austur í Þorlákshöfn, en það er kostnaðarþátttakan sem að þessu lýtur og mér finnst eðlilegt að þjóðarleikvangurinn og þjóðarhallir rísi í höfuðborginni rétt eins og þjóðarleikhúsið, tónlistarhöllin okkar og fleiri mannvirki.

Ég segi: Ég mun gera það sem hægt er til að koma þessu máli sem hraðast áfram. Eðli máls samkvæmt liggur ekki nákvæmlega fyrir hvenær skóflustunga verður tekin. En aðdragandinn að því er að styttast og ég bind vonir við að við komumst ansi langt á þessu vormisseri við að teikna upp hvernig við förum í þetta mikilvæga verkefni. Sá sem hér stendur mun því gera það sem hann getur til að fylgja þessu máli eftir af festu. Ég þakka stuðninginn og kraftinn í þinginu og hlakka til að taka umræðu um þessi mál hér á eftir.