152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, mikill stuðningsmaður þess að við byggjum bæði þjóðarhöll og þjóðarleikvang. Hinn frábæri árangur hins unga landsliðs Íslands í handbolta á nýliðnu Evrópumóti ætti að vera okkur þörf áminning um að ef við hefjum ekki uppbyggingu þjóðarhallar hið snarasta munu landsliðið og íslensk félög sem keppa í Evrópukeppni félagsliða ekki geta spilað sína leiki á Íslandi þar sem engin íþróttahöll uppfyllir þau skilyrði sem sett eru um alþjóðlega keppnisleiki. Það er von mín að hæstv. ráðherra fari hér ekki bara með fögur fyrirheit, um að tala við þennan og tala við hinn, heldur láti hendur standa fram úr ermum og flýti þessu máli hið snarasta.