153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

dýravelferð.

[10:38]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta eru viðkvæm og vandmeðfarin mál sem snerta fólk og það er mikilvægt. Það er mikilvægt að við ræðum þau hér í þingsal en það er líka mikilvægt að við höldum okkur við lögin eins og þau eru og það verður ekki þannig á grundvelli gildandi laga að ráðherra hlutist til um einstök mál. Það er ekki þannig. Hins vegar er það algerlega skýrt í dýravelferðarlöggjöfinni að Matvælastofnun fer með alla framkvæmd laganna. En ég árétta það að í ljósi þess hversu alvarleg þau mál eru sem hafa verið til umræðu þá hef ég talið rétt að skrifa stofnuninni bréf og óska eftir skýrum svörum um verkferla en ekki síst um samskipti við almenning, upplýsingagjöf o.s.frv. Vegna þess hversu viðkvæm málin eru og vegna þess að hér er um málleysingja að ræða þá þurfum við að gæta að okkur í hverju skrefi.