153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

stéttaskipting á Íslandi.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Vandinn við marga jafnaðarmenn, eins og marga í Samfylkingunni, er m.a. sá að fólk trúir því að það sé hægt og skynsamlegt að byggja samfélag þar sem stjórnvöld tryggja öllum jafna útkomu í lífinu. Það sem við gerum í Sjálfstæðisflokknum er að leggja áherslu á að fólk hafi jöfn tækifæri (Gripið fram í.) til þess að blómstra. Þeir sem vilja halda því fram að Ísland sé einkennandi fyrir samfélag þar sem mikil stéttaskipting ríkir vilja auðvitað ekki, eins og hv. þingmaður hafnaði hér í ræðustól, að rætt sé um Gini-stuðla, vilja ekki horfa á raunverulega útkomu. Eða hvað er annars betur til vitnis um að okkur hafi tekist að tryggja góðan jöfnuð í samfélaginu sem við búum í en sú staðreynd að hvergi í heiminum ríkir meiri jöfnuður en á Íslandi? Nei, þeirri staðreynd er auðvitað bara hafnað og spurt: Getur verið að það sé til fólk í ólíkri stöðu í samfélaginu? Getur verið að það sé erfitt að bera saman þann sem fær miklar fjármagnstekjur og þann sem býr við örorku? Auðvitað er erfitt að gera það en við erum líka ekki að reka stjórnmálastefnu sem þykist geta, eins og jafnaðarmenn að jafnaði gera, tryggt öllum sömu niðurstöðu í lífinu. Það er hinn stóri misskilningur hv. þingmanns og jafnaðarmanna almennt og margra vinstri manna að það sé skynsamlegt að reyna það af hálfu stjórnvalda að stoppa þá sem eru að skara fram úr, skera nógu mikið af þeim til að afhenda öðrum sem hafa of lítið þannig að útkoman á endanum verði jöfn. (Gripið fram í.) Þetta er ótrúlega döpur nálgun á hlutverk stjórnvalda. Ég kem hingað upp til að gleðja hv. þingmann með því að segja að þetta fólk er ekki í sömu stöðu og við stjórnmálamennirnir eigum ekki einu sinni að reyna að tryggja öllum nákvæmlega sömu stöðu í lífinu.