153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir sína framsögu og ætla svo sem ekkert að dvelja lengi við þessa umræðu. Málið kemur núna til vinnslu í fjárlaganefnd þar sem við förum í gegnum þetta. Flest af þessu er auðvitað kostnaður sem nú þegar fallinn til og eins og við þekkjum sem unnið höfum með þetta í einhver ár þá er þetta uppgjör á því sem hefur þurft að bregðast við hér á árinu. Það eru meira að segja dálítil viðbrigði að vera allt í einu með tvo fjárauka í staðinn fyrir marga, en það er áleiðis að betra verklagi.

Varðandi endurgreiðsluna í tengslum við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar þá er sannarlega búið að styrkja grunninn frá því sem var, hann hefur hækkað varanlega um 500 milljónir. En það er alveg rétt að gengið hefur illa að áætla þetta og eðli máls samkvæmt þá vitum við kannski aldrei hvað verður af verkefnum á hverjum tíma. Með því að gera þessar 500 milljónir varanlegar var verið að reyna að nálgast það sem er undir á hverjum tíma.

Það er líka vert að minnast á þessar 750 milljónir sem ríkisstjórnin ákvað að verja til sértækra félagslegra aðgerða á þessu ári vegna kórónuveirunnar, m.a. til að styrkja innleiðingu nýrra lausna í heilbrigðistækni og -þjónustu. Það má ekki gleyma því að þótt við séum ekki með neinar takmarkanir eða eitthvað slíkt þá fellur áfram og enn þá talsverður kostnaður til á heilbrigðisstofnanir og annað, vegna þess að fólk er því miður enn að veikjast af þessum fjanda og er þar af leiðandi talsvert frá. Ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé endilega það allra síðasta sem við tölum um varðandi kórónuveirufaraldurinn.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að stíga aðeins inn og styðja við lögregluna. Við þekkjum að mikið hefur mætt á henni eins og víða annars staðar í almannagæslunni, ekki síst urðu þeir aðilar talsvert fyrir því að þurfa að skipta upp svæðum og annað slíkt sem leiddi til aukins kostnaðar. Síðan þurfum við bara að styrkja löggæsluna enn frekar og erum byrjuð á þeirri vegferð með því að auka stöður, fjölga í námi og þvíumlíkt. Það er vel, en það þarf að styrkja grunnlöggæsluna.

Ég er ánægð að sjá þetta varðandi samningsbundnar, ríkisstyrktar leiðir áætlunar- og ferjuaksturs á landsbyggðinni. Þetta hefur auðvitað verið talsvert til umræðu í fjárlaganefndinni, sérstaklega samningur Strætó, og við þurfum kannski bara að taka það til umfjöllunar og fá rökstuðning fyrir því hvers vegna það situr eftir. Þótt aukin útgjöld séu fyrir ríkissjóð þá er ánægjulegt að loftbrúin sé að nýtast talsvert vel. Það er mjög gott.

Sama má segja um spretthópinn og það sem hér er verið að leggja til að við samþykkjum. Það er sömuleiðis viðvarandi verkefni og alls ekki eitthvað sem er búið, þ.e. þau áföll og búsifjar sem bændur hafa orðið fyrir, en kannski er hægt að fara aðrar leiðir eða bregðast við þeim málum með öðrum hætti og ég hygg að svo verði gert.

Sama er að segja um Bjargráðasjóð. Það þarf svo lítið til af því að hann er svo smár. Til að mæta áföllum hefur undanfarin ár verið brugðist við eftir á. Ef við sameinum hann náttúruhamfaratryggingarsjóðnum þá verðum við kannski komin með sjóð sem getur náð dálítið vel utan um þetta.

Ég ætla að lýsa yfir ánægju minni með þá fjármuni sem settir eru í Vatnajökulsþjóðgarð, á Gíg þar sem verið er að kaupa húsgögn og búnað og ná dálítið utan um það. Þar eru saman komnar fleiri stofnanir og aðilar sem skipta máli þegar við komum að og horfumst í augu við þessi stóru mál sem eru fram undan.

Sama vil ég segja varðandi viðspyrnuna í tónlist og sviðslistum. Við ræddum það talsvert hérna og hér voru settar 450 milljónir í það. Sama gildir um íþrótta- og æskulýðsmálin. Það var mikilvægt að koma til móts við börn í viðkvæmri stöðu, sem bjuggu og búa við ofbeldi, með sumarúrræði — líka þau sem eiga við almennan tilfinninga- og hegðunarvanda — og virkniúrræði fyrir 16–19 ára, sem voru ekki á vinnumarkaði eða í námi, og svo auðvitað foreldra sem búa við lágar tekjur. Allt skiptir þetta máli.

En það er líka mikilvægt að setja fjármuni í viðbótarstuðning við íslenskukennslu. Það er mjög mikilvægt, ekki síst á þeim tímum sem við stöndum frammi fyrir þegar við tökum á móti auknum fjölda innflytjenda og flóttamanna, að við búum vel að þeirri kennslu þannig að fólk og börn geti sótt sér hana.

Það kemur ekkert á óvart að bæði Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri fái kannski mestu fjármunina eðli máls samkvæmt vegna Covid-aðgerða og því er það eitthvað sem við vissum. Einnig er vert að minna á, af því að stundum er talað eins og ekkert sé að gert, að verið er að styrkja þjónustu BUGL og BUGL-teymisins á Akureyri. Eðlilega höfum við rætt mikið um aukna eftirspurn vegna geðrænna vandamála. Talsvert hefur verið ráðist í aðgerðir þar og þetta er partur af því. Svo er auðvitað líka verið að leggja talsverða fjármuni til heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem eiga að mæta þessu öllu saman. Við erum einmitt með Sjúkratryggingar Íslands á borði okkar sem fara fyrir okkar hönd með talsvert stóra samninga sem snúa að heilbrigðismálum. Hér er verið að bæta talsvert við sökum þess að mjög mörg verkefni bættust þar við og ekki er úr vegi að reyna að ná utan um þau.

Varðandi lyfin þá get ég tekið undir það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði. Við erum búin að vera í fjárlaganefnd í nokkur ár og það er því miður eitt af því sem viðgengst enn þá að við nálgumst þetta aldrei. Sannarlega koma gengisþættir inn og annað slíkt en við þyrftum kannski að reyna að nálgast þetta eins og ég sagði áðan með kvikmyndastuðninginn. Við erum að reyna að nálgast það. Við eigum að reyna að nálgast þetta núna miðað við þær upplýsingar sem við höfum, a.m.k. að einhverju leyti. Síðan gætum við auðvitað, eins og hefur komið fram, tekið endalaust á móti nýjum, tæknilegum og góðum lyfjum en við þurfum væntanlega líka að forgangsraða miðað við það sem talið er brýnast af þeim sem með þau vinna.

Hvað desemberuppbótina varðar, sem við höfum kallað eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, þá mun ég leggja það til í nefndinni að við förum yfir hana og skoðum. Ég hef rætt það við félaga mína í meiri hlutanum að í ljósi aðstæðna, verðbólgu og annars slíks, ættum við að reyna að gera betur.

Annað sem við höfum gert á þessu ári hvað varðar barnabætur, fæðingarorlof og annað slíkt, sem hér hefur verið farið yfir, skiptir auðvitað máli — ekki síst þegar aðstæðurnar eru eins og þær eru. Ég tel að við þurfum að horfa svolítið á þetta og átta okkur á hvað af þessu er einvörðungu vegna Covid og hvað annað við gætum þurft að horfa í, ekki síst núna þegar við erum að vinna með fjárlögin. Ég þarf svo sem ekkert að fara neitt sérstaklega yfir það hér en ég held að við ættum á hverjum tíma að reyna að minnka fjáraukann og hafa að sjálfsögðu sem mest inni í fjárlögum, það er auðvitað uppleggið. En svo þurfum við að bregðast við því sem ráðherra fór ágætlega yfir og er kannski stærsti hlutinn, þ.e. vaxtagjöldum og verðbótaþættinum sem hér er verið að færa upp og verður okkur kannski áfram dálítið þungur.