153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Við höfum rætt reglugerðirnar og ýmislegt annað í þingsal þegar þær hafa verið að koma og nú er frumvarpið komið fram. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að það sé vel skilgreint hvað séu sjálfbærar fjárfestingar og hvað sé sjálfbærni hjá fyrirtækjum. Það er gott að við erum að fá þessar skilgreiningar frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samstarfið. En ég hefði viljað sjá að við hefðum verið skrefi á undan Evrópusambandinu þegar kemur að slíku vegna þess að við hefðum þegar átt að eiga einhverjar skilgreiningar á sjálfbærni sem hefðu átt að vera í reglum. Yngri fjárfestar og margir lífeyrissjóðir eru farnir að gera þá kröfu að fjármálagerningar og annað sem fyrirtæki og aðrir fjárfesta í séu sjálfbærir og skaði ekki umhverfið og samfélagið. Það hefur reyndar verið ágreiningur um þessar skilgreiningar og flokkun Evrópusambandsins, að hún sé ekki alveg nógu ströng þegar kemur að umhverfismálum. En það er betra að hafa hana en engar skilgreiningar eða flokkun.

Mig langaði að segja, í framhaldi af samræðunum hér í morgun við hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að hér er verið að gera ákveðnar kröfur á skráð fyrirtæki um að fjalla í skýrslum sínum og ársreikningum um ófjárhagsleg atriði. Ég hefði viljað sjá vinnu milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins annars vegar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins hins vegar, þar sem farið yrði í að gera þær kröfur til fyrirtækja að vera með loftslagsbókhald þar sem fram kæmi hversu mikið þau væru að gera, hversu mikið af því sem þau væru að vinna eða búa til orsakaði mikinn útblástur og hvað þau væru að gera til mótvægis gegn því.. Þess má geta að þetta er ekki eins flókið og menn halda vegna þess að til er íslenskur hugbúnaður til að hjálpa fyrirtækjum við að gera þetta af sjálfsdáðum, en spurning hvort það ætti að setja einhverja hvata inn í lög til að fá þessi fyrirtæki til að hugsa grænt um allt sitt starf.

Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur fyrir að koma þessu áfram og hlakka til að sjá fyrsta sjálfbæra fjármálagerninginn í boði hér á Íslandi.