131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:53]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar við erum að ræða um Kárahnjúka og áhrifin af þeim þá hafa þau orðið gríðarleg og það kom einmitt fram í viðtölum sveitarstjórnarmanna þegar þeir komu til fjárlaganefndar hve þetta hefði haft góð áhrif á afkomu sveitarfélaganna með auknum tekjum til þeirra, skatttekjum og öðrum umsvifum sem hafa komið inn í sveitarfélögin þannig að ég held að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að fagna því hvað þetta hefur orðið mikil innspýting í samfélagið fyrir austan og maður finnur fyrir því hvað það er mikill aukinn kraftur eftir að farið var í þessar framkvæmdir þannig að ég held að það ættu allir að fagna því en gera ekki lítið úr því. Ég veit um marga bara úr minni sveit sem eru að vinna inni á Kárahnjúkasvæðinu, fólk sem hefur skipt um vinnu og farið til að ná sér í aukapening því að miklu betur er borgað þar heldur en í byggð svo að ég hvet Jón til að fara og fá sér vinnu á Kárahnjúkasvæðinu og auka þar með innlent vinnuafl.

Hvað varðar innritunargjöld til Háskóla Íslands, þá eru þetta ekki skólagjöld, hv. þm. Jón Bjarnason. Þú borgar ekki fyrir menntun við Háskóla Íslands. Innritunargjöld eru þjónustugjöld og það er alveg frítt að nema við Háskóla Íslands.