131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:06]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kveður við dálítið annan tón í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar við umræðu um þessi fjárlög en var um þau síðustu sem lögð voru fram fyrir ári síðan. Þá kom ég inn á þing sem nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins og mér var legið á hálsi fyrir að í því fjármálafrumvarpi væri ekki gert ráð fyrir neinum skattalækkunum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi mig og reyndar félaga mína sem komu nýir inn á þing fyrir það að ná ekki fram skattalækkunum inn í það frumvarp.

Nú eru skattalækkanirnar komnar fram og það er ljóst að fjárlögin taka mið af því að skattar verði lækkaðir eins og við lofuðum fyrir síðustu kosningar, en hvað segir hv. þm. þá? Hann fagnar því ekki nú að slík áform séu uppi og það liggi fyrir að ríkisstjórnin ætli að lækka skatta. Nei, nú er málflutningurinn sá að það sé ekki rétti tíminn til að lækka skatta. Og hver kannast nú ekki við þennan söng bæði frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni eða öðrum vinstri mönnum sem taka þátt í stjórnmálum, hvort sem það er á vettvangi Alþingis eða annars staðar úti í þjóðfélaginu? Það virðist aldrei að áliti þessara manna vera rétti tíminn til að lækka skatta, hvorki við kreppuaðstæður né þegar þensla er í þjóðfélaginu. Maður hlýtur að spyrja, úr því að hv. þm. lýsti því yfir í ræðu sinni að það væri ekki rétt að lækka skatta við þessar aðstæður og fyrst hann telur sig vera þess umkominn að skera úr um að svo sé: Hvenær er rétti tíminn eiginlega að mati þingmannsins til að lækka skatta? (Forseti hringir.) Við hvaða aðstæður er það skynsamlegt að mati þingmannsins að skattar séu lækkaðir?