131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal svara þessu með mikilli ánægju. Þegar samneyslan er vel haldin og vel er séð fyrir brýnum verkefnum sem hið opinbera á að sjá fyrir og efnahagsaðstæður eru hagstæðar til þess að lækka skatta þá er rétti tíminn til að gera það og lækka þá hjá þeim sem mesta þörfina hafa fyrir það, en ekki hjá hátekjuliðinu. Ekkert af þessu er til staðar í skattalækkunarprógrammi ríkisstjórnarinnar.

Ég held reyndar að það sé rangt munað hjá hv. þm. að ég hafi sérstaklega verið að biðja um skattalækkanir í fyrra. Staðreyndin er nefnilega sú að Vinstri hreyfingin — grænt framboð hefur verið algjörlega sjálfri sér samkvæm í þessu. Við tókum ekki þátt í loforðakórnum fyrir kosningar 2003, við vöruðum við þessu. Við töldum það ábyrgðarleysi að ætla að fara niður með skatthlutfall á Íslandi en láta samt eins og menn gætu rekið hér velferðarkerfi sem stæði undir nafni á norræna vísu. Það er nefnilega ekki hægt, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að gera hvoru tveggja, að elta Ameríkana í skattamálum og halda uppi norrænu velferðarkerfi. Þetta tvennt fer ekki saman, það er ósköp einfalt. Og það munu Íslendingar upplifa á eigin skinni, því miður, ef þessi ríkisstjórn og hjálparkokkar hennar allir koma þessu öllu saman í gegn.

Ég var fyrst og fremst í stuttri ræðu minni að rökstyðja að það væri efnahagslega óskynsamlegt að fara í þessar skattabreytingar við núverandi aðstæður. Ég komst í raun og veru ekkert út í það að ræða hversu ranglátt skattalækkunarprógramm ríkisstjórnarinnar er, af því að það á fyrst og fremst að gagnast hinum efnameiri í samfélaginu og það er staðreynd. Ég held líka að það sé mjög hættulegt að nota tímann þegar ríkissjóður er að hagnast á viðskiptahallanum, því það er það sem gerir það að verkum að hæstv. fjármálaráðherra getur belgt sig út, að ríkissjóður er að hala inn á viðskiptahallann. Ef menn nota tímann þá og lækka beina skatta getur það komið mönnum illilega í koll síðar þegar veltan dregst kannski skyndilega saman í þjóðfélaginu, því veislan mun ekki standa um aldur og ævi. Hún mun ekki gera það.