131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið yfir það í dag hver megináherslumál flokksins eru hvað varðar þau fjárlög sem hér liggja fyrir og hafa verið rædd síðan klukkan hálfellefu í morgun. Ég tek undir þau sjónarmið sem þar hafa komið fram, bæði hvað varðar skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar og það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér síðast um samninginn við öryrkja. Það er auðvitað forkastanlegt að ríkisstjórnin skuli ganga fram í því máli eins og hún gerir. Ég hefði satt að segja búist við því að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi upp í andsvar við ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar en ég treysti því að hann eigi eftir að koma í ræðustól og svara fyrir þessi mál síðar í umræðunni.

Hæstv. fjármálaráðherra segir í ræðu sinni að hugmyndin á bak við þetta fjárlagafrumvarp sé langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum enda sé ríkisstjórnin staðráðin í því að taka ríkisfjármálin sterkum tökum, eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni, og menn hugsa sér að beita þessum sterku tökum sínum til þess að hamla gegn þenslu í efnahagslífinu á næstu árum.

Eitt af því sem er svona meginstef í fjárlagafrumvarpinu í ár er lækkun tekjuskatts um 1% auk annarra tekjulækkunaráforma ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í morgun varðandi lækkun tekjuskattsins að hér sé um aðgerðir að ræða sem hvetja eigi fólk til að afla aukinna tekna. Með öðrum orðum vinnuhvetjandi aðgerðir, held ég að hæstv. ráðherra hafi sagt, og talaði um að það kæmi ekki til með að veita af í náinni framtíð að auka við vinnustundir þjóðarinnar þegar horft væri til áframhaldandi stórframkvæmda hjá okkur.

Í þessu sambandi langar mig til að nefna eitt atriði sem ég tel afar mikilvægt að við hugleiðum í þessu sambandi. Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin hugleiði í alvöru þá staðreynd að Íslendingar vinna lengri vinnudag, lengri vinnuviku en nokkur önnur þjóð í Evrópu? Íslendingar eru vinnulúin þjóð vil ég meina. Við höfum rætt hér okkar í milli, a.m.k. þegar við erum að tala um félagsmálin, að það sé þörf á því að fara að auka þann tíma sem foreldrar geta eytt með börnum sínum. Og ég veit ekki betur en hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafi gefið slíkar yfirlýsingar, að það sé þörf á því að foreldrar fari að eignast aukinn tíma til að eyða með börnum sínum. En mér virðist ekki vera neitt af slíku á dagskrá hjá hæstv. ríkisstjórn þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað, mér sýnist að hér eigi bara að bæta ákveðinni olíu á eld einkaneyslunnar, lækka tekjuskatt til að hvetja fólk til aukinna tekna og aukinnar vinnu og á sama tíma segir hæstv. fjármálaráðherra að hann ætli að hamla gegn þenslu í efnahagslífinu. Hvernig má það vera? Er það ekki þversögn? Er það ekki svipuð þversögn og búið er að vera að benda á í umræðunni í dag að hagvöxturinn hækkar á sama tíma og atvinnuleysi vex? Hvaða þversögn er fólgin í því? Hvaða della er hér í gangi, af hverju keyra menn fjárlagafrumvarpið svona á þversögnum?

En af því að ég geri hér að umtalsefni að fólk þurfi að fara að eiga aukinn tíma með börnum sínum og geta eytt meiri tíma en hingað til hefur verið gert á heimilum sínum og í það að sinna fjölskyldum sínum þá er ég kannski komin að meginatriðinu sem mig langaði til að ræða í þessari ræðu minni en það er nokkuð sem kallast samþætting kynjasjónarmiða í allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra talaði hér fyrir jafnréttisáætlun á síðasta vori. Hún var samþykkt og framkomu hennar var fagnað eins og reyndar var gert líka fyrir fjórum árum þegar næsta jafnréttisáætlun þar á undan var lögð fram. Hæstv. félagsmálaráðherra viðurkenndi að ekki hefði okkur nú tekist nægilega vel til á síðasta fjögurra ára tímabili hvað það varðaði að samþætta kynjasjónarmiðin inn í allar ákvarðanatökur ríkisvaldsins. Ég verð að lýsa því yfir hér, frú forseti, að mér eru það mikil vonbrigði að sjá að hæstv. fjármálaráðherra og hans starfsfólk í fjármálaráðuneytinu skuli ekki hafa tekið mið af þeim sjónarmiðum samþættingar sem hæstv. félagsmálaráðherra talaði hér fyrir síðasta vor.

Samþætting byggir á því að tekið sé tillit til kynjasjónarmiða við alla ákvarðanatöku. Fjárlögin eru þar ekki undanskilin. Þau þarf að skoða sérstaklega með tilliti til þeirra áhrifa sem þau hafa á kynin. Og varðandi skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar þá er alveg ljóst að skattalækkunaráformin koma ójafnt niður á kynjunum. Það er búið að tala um það hér í þeirri umræðu sem staðið hefur í dag að þessi áform nýtist fyrst og fremst þeim sem séu tekjuháir. Ekki eru konur svo fjölmennar í þeim hópi. Þá spyr maður: Hvers vegna gætir ríkisstjórnin ekki betur kynjasjónarmiða í fjárlagafrumvarpinu en raun ber vitni? Stríðir þetta ekki gegn þeim ásetningi sem hæstv. félagsmálaráðherra talaði fyrir í vor?

Samþætting þarf að verða að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslu okkar og það verður ekki gert nema með atbeina ráðherranna. Hæstv. fjármálaráðherra er þar ekki undanskilinn. Samþætting er þessi aðferð, verkfærið sem gerir okkur kleift að ná árangri í jafnréttismálum. Hann hefur verið lélegur hingað til. Það sannar niðurstaðan úr jafnréttisáætlun síðustu ára sem má lesa um í skýrslu félagsmálaráðherra sem dreift var á síðasta þingi. Þörf er á því að hæstv. ráðherrar vakni upp af þeim væra blundi sem þeir virðast sofa hvað þetta varðar. Ég auglýsi því hér eftir jafnréttissjónarmiðunum og samþættingunni í þessu fjárlagafrumvarpi.

Að lokum langar mig til að gera að umtalsefni þá þætti sem lúta að menntamálum í fjárlagafrumvarpinu, frú forseti. Ef það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að hækkunin til menntamála, sú 9% hækkun sem hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir í sinni ræðu og lesa má um í fjárlagafrumvarpinu, stafi fyrst og fremst af því að hér sé um aukinn nemendafjölda að ræða á háskólastigi og framhaldsskólastigi og ef frá eru taldar hækkanir til rannsóknasjóðanna, sem ég fagna að sjálfsögðu, þá finnst mér vera öfugmæli að tala hér um hækkuð framlög til menntamála því það veit hver maður sem fylgst hefur með fjárlagaumræðu undanfarin ár að nemendafjöldi hefur verið vanáætlaður hvert einasta ár. Ég get talað fyrir undanfarin fimm ár sem ég hef staðið í ræðustól Alþingis og rætt um vanáætlaðan nemendafjölda í framhaldsskólum og háskólum.

Það er gott ef leiðrétta á það hér. En þá skulu menn bara segja það en ekki láta þjóðina halda að hér sé um að ræða einhverja hækkun til menntamála aðra en þá sem felst í leiðréttingunni á nemendafjöldanum. Ég ætla bara rétt að vona að sú leiðrétting sé þá raunsönn og rétt og að menntamálanefnd fái ekki inn til sín skólafólkið sem kemur til með að segja að hækkunin sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir sé enn ein vanáætlunin. Við vitum að 70% af hverjum árgangi núna sækir í háskólanám. Það er vitað. Við vitum líka fyllilega hvaða fjöldi sækir í framhaldsskólanám þannig að það ætti ekki að vera ofverkið okkar að reikna þessa hluti rétt. Ég krefst þess líka að hér sé gagnsæi og hlutirnir sagðir á réttan hátt og kem til með að geta sannreynt það þegar farið verður yfir málið í hv. menntamálanefnd Alþingis.

Ég vil svo í blálok ræðu minnar taka undir með hv. formanni fjárlaganefndar sem talaði í ræðu sinni um hagvöxtinn og stöðu ríkisfjármála. Hann endurtók margsinnis í ræðunni að auðvitað mætti gera betur, að alltaf mætti gera betur. Ég get tekið undir þau orð formannsins. Mér sýnist að hér megi sannarlega gera betur en raun ber vitni, betur en hæstv. ríkisstjórn er að gera í þessum málafokki núna. Eins og ég kannski nefndi í ræðu minni þá mundi ég vilja sjá gert betur í menntamálum og jafnréttismálum og samþættingarmálum. Ég vonast til þess að í umræðunni sem á sér stað núna á næstu vikum getum við leiðrétt það sem aflaga hefur farið í þessu frumvarpi. Á endanum getum við kannski vænst þess að ná hér, alla vega að einhverju leyti, sátt og betri niðurstöðu en fjárlagafrumvarpið, eins og það liggur núna fyrir, gefur okkur kannski vísbendingar um.