131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:22]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir upplýsingarnar sem voru ekki margar nýjar vegna þess að það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að búið væri að fresta framkvæmd Héðinsfjarðarganga. Hins vegar væri fróðlegt að fá töluna hjá hæstv. ráðherra, ef hann hefur hana handbæra, hversu hátt hlutfall frestun Héðinsfjarðarganga er af þeim tæpu 2 milljörðum sem áætlað er að fresta á næsta ári. Einnig væri fróðlegt að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðherra um aðrar framkvæmdir. Þó svo að það liggi ekki fyrir eru væntanlega einhverjar hugmyndir í gangi um þær, varðandi t.d. hönnun og annað þess háttar sem er þá farið að draga úr vegna þess að ef einhverjar framkvæmdir eru ekki tilbúnar er kannski eðlilegra að fresta þeim en öðrum.

Ég varð fyrir vonbrigðum með að hæstv. ráðherra skyldi ekki geta upplýst okkur nánar um það hvaða framkvæmdir væru á ferðinni fyrir utan Héðinsfjarðargöngin, sem var ekkert nýtt og búið að taka umræðu um. Frestun þeirra minnir mann á umræður sem áttu sér stað áðan vegna þess að búið er að lofa Héðinsfjarðargöngum í tvennum alþingiskosningum, annars vegar var vilyrði fyrir þeim 1999 og aftur 2003. Þá var búið að setja í gang útboðsferlið og útboðin lágu fyrir, en það er ekki fyrr en eftir kosningar sem ákveðið er að fresta framkvæmdunum.

Það er ekki tími til þess að fara nákvæmlega yfir þá umræðu hér en ég hefði vænst þess að hæstv. ráðherra gæti gefið okkur einhverjar frekari hugmyndir um það hvaða framkvæmdum verið er að velta fyrir sér að fresta vegna þess að ekki hefur þessi ágæta tala komið af himni ofan, það hlýtur einhver rökstuðningur að vera á bak við hana.