133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum tekið svo til orða að nákvæmasta vísindagrein í heimi sé sú sem heitir að vera vitur eftir á. Ég ætla svo sem ekki að dæma um það hér og nú hvort sú grein á mjög vel við hér. Ég vil þó leyfa mér að fullyrða að það er alveg rétt sem formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, benti á í ræðu sinni í gær í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, að ríkisstjórnin hefði verið tekin í bólinu í þessu máli. Ég held það sé alveg óhætt að fullyrða það.

Þegar maður skoðar þetta mál, lítur um öxl, skoðar feril málsins, þá stendur það upp úr að öll viðbrögð stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, hafa verið frekar fálmkennd og máttvana. Við vissum það, eða réttara sagt ríkisstjórnin vissi það, fyrir síðustu alþingiskosningar, vorið 2003, að Bandaríkjamenn hygðust fara héðan með herþoturnar. Því var haldið leyndu fyrir kjósendum fram yfir kosningar, en þessi frétt kom í dagsljósið síðar þá um sumarið. Þá þegar vissu náttúrlega allir hvert stefndi. Innrásin í Írak var hafin með gríðarlegum kostnaði fyrir Bandaríkjamenn. Bandaríkjamenn eiga við efnahagsörðugleika að stríða. Þeir hafa verið að loka herstöðvum víða, ekki síst í Evrópu. Röðin hlaut að koma að Keflavík og Íslandi fyrr eða síðar.

Við í Frjálslynda flokknum bentum á þetta strax sumarið 2003. Við bentum strax á leiðir til úrbóta. Mér sýnist að hluti af þeim leiðum sem við töluðum um þá þegar sé innifalinn í því samkomulagi sem ríkisstjórnin hefur nú gert við Bandaríkjamenn, þremur árum síðar. Þremur árum síðar, eftir að Bandaríkjamenn eru farnir.

Virðulegi forseti. Ég hefði frekar kosið að íslensk stjórnvöld hefðu staðið fastar í lappirnar í þessu máli gegn Bandaríkjamönnum og rukkað þá fyrir nokkrum árum um það hver framtíðin ætti að vera í þessum málum, þ.e. meðan við Íslendingar höfðum þó að minnsta kosti einhverja samningsstöðu.

Það er svo grátlega augljóst, virðulegi forseti, þegar maður skoðar þann samning sem hér liggur fyrir, að Íslendingar hafa haft afskaplega veika samningsstöðu gegn Bandaríkjamönnum þegar endanlega var farið í að ganga frá þessu samkomulagi.

Það er alveg hárrétt, sem bent hefur verið á hér í ræðum, að Bandaríkjamenn hafa nánast stillt okkur upp við vegg og sagt: „Svona verður þetta. Við erum farnir. Bless“. Við sitjum uppi með það sem þeir skilja eftir sig, mengun, húsnæði og annað og að sjálfsögðu kostnað.

Það er líka til marks um hve illa undirbúið þetta er allt saman af hálfu ríkisstjórnarinnar — einmitt sú staðreynd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í ræðu sinni áðan. Það hefur ítrekað verið bent á að það hefði kannski verið gáfulegt að huga að mengunarmálum og undirbúa þann þátt málsins, þ.e. að við Íslendingar sjálfir gerðum það. En það hefur ekki verið gert því miður. Og nú sitjum við uppi með þetta svæði og vitum ekki nákvæmlega hvað þar er að finna. Við skulum öll vona að sú mengun sé sem allra minnst og það muni ekki kosta mikið að þrífa upp eftir Kanann. Við skulum vona það. En eins og staðan er í dag vitum við sem sagt ekki alveg hvað hér liggur undir steini.

Það hefur svo sem ekki mikið upp á sig, virðulegi forseti, að standa hér og rífast og skammast yfir því sem liðið er. Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar. Ég sé í sjálfu sér ekki neina ástæðu til að eyða meira af ræðutíma mínum í að rífast yfir því hvað ríkisstjórnin hefði getað gert betur.

Spurningar sem vakna nú hljóta að vera: Þurfum við Íslendingar varnir? Þurfum við að vera í hernaðarbandalagi? Er landið varnarlaust? Ég svara fyrstu spurningunum með jái. Auðvitað þurfum við varnir og öryggiskerfi. Við eigum að vera áfram í NATO. Það hefur alltaf verið skoðun Frjálslynda flokksins, einörð afstaða Frjálslynda flokksins, að við eigum að vera í NATO. Við höfum staðið okkur vel innan þessa bandalags, mjög vel vil ég segja. Við höfum staðið við allar okkar skuldbindingar. Við höfum ekki verið eins og mér finnst sumir stjórnmálamenn upplifa ástandið — það er ekki eins og við höfum verið þiggjendur í þessu. Við höfum alls ekki verið þiggjendur í þessu gegnum árin. Það erum við sem höfum verið gefendur og það eru NATO og Bandaríkjamenn sem hafa verið þiggjendur. Við höfum látið af hendi land og aðstöðu, mannskap og fólk til að starfa fyrir Bandaríkjamenn og fyrir NATO. Við höfum staðið við allar okkar skuldbindingar. Við hefðum kannski einmitt átt að hafa það hugfast fyrr og mæta þessum vatnaskilum í varnarmálum okkar af svolítið meiri reisn. Við hefðum kannski náð meiri árangri ef við hefðum talað við Bandaríkjamenn fullum hálsi og sýnt svolítið meiri kjark og áræði.

En þriðja spurningin hér áðan var þessi: Er landið nú án varna? Nei, ég tel svo ekki vera. Ég tel að í þeim samningi sem hér liggur fyrir, þó að hann sé ekki góður, felist nægileg trygging fyrir okkur Íslendinga fyrir því að hér verði hægt að grípa til varna ef í harðbakkann slær. Það veltur að vísu á ýmsum atriðum, ýmsum þáttum sem þarf að uppfylla núna í framtíðinni, hvort þetta verður eins skilvirkt og vonir standa til. En auðvitað er það svo að hingað yrði hægt að senda með tiltölulega skömmum fyrirvara varnarherlið frá Bandaríkjunum eða NATO-ríkjum í nágrenni okkar ef til þess þyrfti að koma, sem við vonum að sjálfsögðu ekki. Ísland er ekki svo langt frá Norður-Ameríku eða frá Evrópu.

Ég verð að segja að mér líst ágætlega á að NATO-ríkjunum og Bandaríkjamönnum verði gefinn kostur á að stunda hér heræfingar í framtíðinni. Mér líst vel á það. Það er hið besta mál. Ég tel að við Íslendingar ættum að taka þátt í þeim heræfingum, sérstaklega á landi og líka á legi. Það þarf að efla Landhelgisgæsluna og hún gæti að mínu viti og ætti að taka þátt í flotaæfingum hér í Norðurhöfum með öðrum NATO-þjóðum í framtíðinni.

Ég tel líka að við Íslendingar ættum að koma okkur upp einhvers konar varnarliði, kannski ekki mjög fjölmennu en þó liði sem fengi þjálfun til að geta unnið með herliði frá NATO ef þess þyrfti. Ég tel líka að hér á landi ætti að vera fyrir hendi einhvers konar vopnabúr sem hægt yrði að grípa til ef þess yrði þörf, þ.e. Íslendingar gætu gripið til þess til að verja hendur sínar á meðan hjálp væri að berast frá nágrannalöndunum. Ég tel, virðulegi forseti, að þannig væri hægt að tryggja varnir landsins með mjög trúverðugum hætti til framtíðar.

Við þurfum svo líka að sjálfsögðu að fara vandlega og fordómalaust yfir það hvernig við ætlum að tryggja innra öryggi ríkisins í framtíðinni. Það er sjálfsagt mál með tilliti til glæpastarfsemi, hvort sem um er að ræða hefðbundna glæpi eða hryðjuverk. Allar sjálfstæðar þjóðir hafa einhvers konar öryggisþjónustu á sínum snærum. Öll okkar nágrannalönd hafa það. Það er sjálfsagt og eðlilegt að íslenska ríkið hafi einnig einhvers konar slíka þjónustu á sínum snærum. En að sjálfsögðu þarf það að vera bundið trúverðugu og öruggu æðra eftirliti ef svo má segja. Til að mynda á vegum þingsins.

Takist okkur að haga þessum málum okkar með þeim hætti sem ég hef rissað upp hér í grófum dráttum hef ég í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að hér verði ekki hægt að tryggja varnir og öryggi til framtíðar. Alls ekki.

Virðulegi forseti. Ég minntist hér áðan á að við hefðum látið NATO og Bandaríkjamönnum í té ákveðnar auðlindir sem hafa verið mikils virði gegnum árin. Ég talaði um land en ég talaði líka um fólk. Það er einmitt mannauðurinn sem ég vil koma að hér í lok ræðu minnar og nefna aðeins.

Ég verð að fá að segja, virðulegi forseti, að mér finnst okkur Íslendingum og íslenskum stjórnvöldum til vansa hve lítið við höfum sinnt því fólki sem nú hefur verið að missa vinnuna á Keflavíkurflugvelli. Þetta voru 600 manns. Í fréttum nú nýlega var okkur tjáð að rúmlega 100 væru enn án atvinnu nú þegar herinn er farinn. Við vitum ekkert um það hvað varð um öll hin.

Ég vil gera það að tillögu minni, virðulegi forseti, að einhverjir félagsvísindamenn taki sig nú til og geri könnun á því hvað varð um það fólk sem áður vann á vegum Bandaríkjahers. Hvers konar störf hefur það fengið? Hvernig gekk því að finna sér ný störf við hæfi? Hvernig er afkoma þeirra nú miðað við það hvernig hún var þegar þetta fólk vann fyrir Bandaríkjamenn?

Ég lagði til hér í vor að gerðir yrðu starfslokasamningar við þetta fólk, kannski ekki síst þá sem hafa unnið lengi fyrir Bandaríkjaher og eru komnir á aldur. Fólk sem jafnvel hefur varið lunganum af sinni starfsævi í að vinna á vellinum. Mér finnst þetta vera siðferðislegt mál. Þó að þetta fólk hafi verið á launaskrá hjá Bandaríkjaher skulum við ekki gleyma því að það hefur verið að vinna og leggja starfskrafta sína í að sinna varnar- og öryggismálum landsins. Gildir þá einu hvort það hafi unnið í eldhúsi eða á verkstæði eða einhvers staðar annars staðar. Þetta fólk hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar til að hér væri hægt að hafa trúverðugan varnarviðbúnað á viðsjárverðum tímum, á tímum kalda stríðsins til að mynda. Þetta fólk var að vinna fyrir okkur þó það væri kannski á launum hjá Bandaríkjamönnum og ég tel að við hefðum átt að sinna þessu fólki miklu betur en við höfum gert. Mér finnst að örlög þessa fólks hafi gjörsamlega fallið í skuggann og nánast algjörlega gleymst, til að mynda núna þegar herinn hefur verið að fara. Manni hefur hreinlega sviðið að horfa á hvern fréttatímann á fætur öðrum þar sem öllu púðrinu hefur verið eytt í eitthvað annað sem skiptir í raun og veru engu máli. Einhverjir mótmælendur sem hafa staðið í andófi gegn hernum um áratugaskeið hafa loksins fengið ósk sína uppfyllta. Gott mál og allt í lagi með það. En þessu fólki hefur allt of lítið verið sinnt.

Ég vil nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að hvetja ríkisstjórnina, ráðamenn, hæstv. forsætisráðherra, til að gera ráðstafanir til þess að haldið verði utan um þetta fólk og það verði séð til þess að úr málum þeirra leysist með sem allra bestum hætti. Enn og aftur: Helst hefði ég viljað að íslensk yfirvöld hefðu lagt fram einhvers konar pakka, bæði með fjárhagsaðstoð og líka annarri aðstoð, til að mynda varðandi endurmenntun og annað þess háttar, þannig að þetta fólk sem hefur þjónað okkur öllum á sviði öryggis- og varnarmála gæti að minnsta kosti átt jafngóða tíma fram undan og það hefur átt á meðan það vann á vellinum.

Lengra ætla ég ekki að hafa mál mitt um þetta að þessu sinni, virðulegi forseti.