135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:08]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra fer mikinn. (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra.) Iðnaðarráðherra, fyrirgefðu. Þetta var nú einu sinni sama ráðuneytið. En burt séð frá því ætluðum við að tala um mótvægisaðgerðir og ef hann heldur að viðhald á opinberum byggingum, 1.200 milljarðar í Byggðastofnun, lagfæring á fjarskiptasambandi sem var lofað þegar Síminn var seldur og 6 milljarðar í flýtiframkvæmdir í samgöngumál (Gripið fram í: En í nýsköpun og menntun?) og síðan einhverjir smáaurar í menntun nýtist fólki í sjávarbyggðunum, sem það gerir ekki, hvorki sjómönnum né fiskvinnslufólki, þá er það svolítið sorglegt að menn haldi að slíkar aðgerðir séu fyrir fólkið. Það eina sem dugar fyrir fólkið í sjávarbyggðunum er að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og það væri gaman að heyra í ráðherranum með það hvort Samfylkingin ætlar að halda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfinu áfram eða hvort þeir ætla að leggjast á sveif með okkur um að gera breytingar á þessu kerfi sem er að leggja, og búið að leggja sjávarbyggðirnar í rúst. Það er það sem þetta snýst um, hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Ég benti á það í gær að ef við settum allan fiskinn á fiskmarkað þá mundu tekjur sjómanna hækka. Þá mundu tekjur sveitarfélaga hækka, þá mundi tekjuskattur hækka og fiskvinnslur án útgerðar fengju sama aðgang að auðlindinni og stórsægreifakompaníin fá í dag. Þetta er raunhæf aðgerð. En allt snýst þetta um fólkið, það er fólkið sem skiptir máli. Sá félagslegi þáttur sem fólkið býr við þegar búið er að rústa möguleikum þess að hafa lifibrauð sitt í sjávarbyggðunum er mjög alvarlegur. Og að bjóða svo þessu fólki flutningsstyrk til að flytja sig í burtu, það er náttúrlega ekkert annað en ósvífni. Ef bjóða á fólkinu einhverja valkosti og ef stjórnvöld ætla að halda þessu fiskveiðistjórnarkerfi áfram þá eiga þau að segja við fólkið í landinu: Við ætlum að borga ykkur sannvirði, rétt verð fyrir fasteignir ykkar og gefa ykkur tækifæri til að flytja í burtu vegna þess að við ætlum að vera með óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi og við ætlum ekki að leyfa ykkur að lifa áfram af nálægð ykkar við fiskimiðin sem byggðarlög ykkar voru byggð upp út af. Þau voru nálægt fiskimiðum. Þið fáið ekki að nýta þau lengur. Við ætlum að láta aðra sjá um þetta, kvótagjafaþegarnir sem fengu kvótann gefins mega hafa hann en ekki fólkið. Það væri gaman að heyra í hæstv. iðnaðarráðherra um hvað Samfylkingin ætlar að gera í þessu. Það er hægt að gera ýmislegt en til þess þarf kjark. En það er ekki gróska í atvinnulífinu úti á landi og við þurfum ekki að fara lengra en í Þorlákshöfn til að sjá það. Þar er verið að segja upp fólki í stórum stíl og þar er verið að leggja skipum og jafnvel miklar blikur á lofti um enn þá meiri samdrátt og fækkun atvinnutækifæra.