136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:26]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er með hálfum hug að maður leggur leið sína í ræðustól Alþingis í dag. Ástandið er með þeim hætti að við erum öll fremur hnípin, þjóðin er hnípin enda í vanda. Við þurfum hins vegar að horfa fram á veginn eins og hér hefur verið sagt margoft í dag í þessari umræðum og í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra í gær. Auðvitað höfum við úr ýmsu að spila en við þurfum sömuleiðis að athuga að það er margs að gæta.

Það sem okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið efst í huga á síðustu dögum og í þessum umræðum er það að við viljum að allt sé gert til að fara inn á aðrar brautir í efnahagsmálum, breyta í grundvallaratriðum stjórn efnahagsmála. Það sem skiptir okkur mestu máli og við teljum sömuleiðis að skipti þjóðina mestu máli er að menn fari ekki út í það að viðhalda óbreyttu kerfi. Við höfum lagt okkar af mörkum í þeim efnum. Við höfum lagt fram ýmsar hugmyndir á síðustu árum um það hvernig gera eigi hlutina með öðrum hætti en ríkjandi stjórnvöld hafa verið að gera. Áðan tilkynnti hæstv. forseti að verið sé að dreifa þingmáli frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um Efnahagsstofnun. Þar förum við yfir í nokkuð mörgum liðum þær hugmyndir sem við höfum lagt á borðið og höfum þróað eftir því sem málin hafa breyst á vettvangi efnahagsmála. Við höfum verið tilbúin hvern einasta dag að taka þátt í þeirri vinnu sem fram þarf að fara og við lýsum enn yfir vilja til þátttöku.

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að við skoðum stöðuna og spyrjum okkur: Hvað gerist nú? Við vitum öll að það hefur stefnt í óefni. Það hafa ýmis merki verið á lofti, okkur hefur verið bent á það af sérfræðingum, bæði hér á landi og erlendis, mánuðum og jafnvel missirum saman að óveðursský séu á lofti. Ég minnist þess að það eru kannski rúmir tveir mánuðir frá því að maður las fréttir um efnahagssérfræðinga úti í heimi sem sögðu okkur frá stöðunni í Bandaríkjunum í fjárfestingarsjóðunum þar, fasteignarsjóðunum Freddie Mac og Fannie Mae. Efnahagssérfræðingar spáðu því fyrir tveimur, jafnvel þremur mánuðum að gera yrði eitthvað róttækt í málefnum þessara sjóða og að öllum líkindum væri eina ráðið að þjóðnýta þá, að Bandaríkjastjórn færi inn í þá. Og hvað gerðist? Nákvæmlega það sem efnahagssérfræðingar höfðu spáð.

Það eru kannski 6–8 vikur síðan við heyrðum fréttir um það í fjölmiðlum frá íslenskum sérfræðingum sem töldu að staða Glitnis væri veik. Af hverju kom þá það sem gerðist um síðustu helgi okkur í opna skjöldu? Auðvitað gerði það það ekki. Hins vegar hafa stjórnvöld haft tilhneigingu til að sofa á verðinum, þá tilhneigingu hafa þau haft árum saman — Sjálfstæðisflokkurinn sem farið hefur með efnahagsmálin, verið í forsæti ríkisstjórnar í 17 ár og stjórnað þaðan nú síðustu árin með Framsóknarflokki og á þessu kjörtímabili með Samfylkingunni. En hvað gerist nú? Við hv. alþingismenn horfum fram á það að endurreisa þurfi tiltrú þjóðarinnar á efnahagsstjórninni, ekki efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar heldur efnahagsstjórn almennt. Það verkefni þurfum við að vinna í sameiningu og það verkefni hefst við borð fjárlaganefndar. Og ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég var nokkuð snortin vegna ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar hér áðan. Hann hóf mál sitt á því að tala um breytt vinnubrögð við fjárlagagerðina. Á máli hans mátti skilja að tími væri kominn til þess að auka áhrif þingsins á gerð fjárlaga og þar með draga úr áhrifum og völdum ríkisstjórnarinnar á fjárlagagerðina, að við þyrftum að laga okkur að nýjum veruleika.

Hæstv. forseti. Ég fagna þessum yfirlýsingum sem koma frá áhrifamiklum manni, varaformanni hv. fjárlaganefndar við þessa umræðu og ég treysti því auðvitað að það geti verið breyttir og bættir tímar fram undan og menn átti sig á því að þótt við séum knúin til samstarfs núna og samráðs, þá verði önnur vinnubrögð viðhöfð við úrvinnslu þessa fjárlagafrumvarps en áður hafa verið.

Við verðum líka að skoða, hæstv. forseti, það sem hefur verið að gerast í samfélaginu. Við þurfum að athuga á hvern hátt hægt er að endurskoða siðferði viðskiptanna. Við þurfum að spyrja okkur spurninga eins og þeirra: Verður hægt að endurskoða alla kaupréttarsamningana sem hafa verið gerðir? Eða starfslokasamningana? Við þurfum líka að skoða hversu mikið hefur verið tekið af fjármunum út úr kerfinu, út úr bankakerfinu, og þess vegna grunnstoðum samfélagsins sem ríkisstjórnin hefur verið iðin við að einkavæða.

Við höfum heyrt það hvað eftir annað að nýfrjálshyggjan og þeir sem aðhyllast þá stefnu hafi horn í síðu alls eftirlitsins sem er hér með stofnunum og fyrirtækjum. Það henti ekki nýfrjálshyggjunni, markaðurinn eigi að „regúlera“ sig sjálfur, eins og það heitir á vondu máli. Við þurfum að endurskoða þetta. Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur verið sú að valdið eigi að vera hjá markaðnum. Það hefur verið pólitísk stefna sem keyrt hefur verið eftir hér. Þeirri stefnu verður að breyta.

Hæstv. forseti. Við spyrjum: Hvað ætla menn að gera? Ætlar ríkisstjórnin að halda áfram áformum sínum um einkavæðingu? Þess eru nokkur merki. Við höfum ekki séð að verið sé að breyta um kúrs í þeim efnum og þetta fjárlagafrumvarp er ekki til marks um að það eigi að breyta neinu þar um. En það verður að breytast, það verður að breytast. Og ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin virkilega að fara að setja virkjanirnar og þar með auðlindirnar okkar á markað? Er ekki rétt að staldra við og horfast í augu við veruleikann?

Núna ríður á að taka höndum saman, ekki við það að viðhalda óbreyttu ástandi heldur að horfa inn á nýjar brautir. Þá teljum við sem sitjum á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að það séu ákveðin tækifæri fólgin í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og við þurfum að skoða þá hugmyndafræði líka við fjárlagagerðina. Hvernig stöndum við á bak við sjálfbærni í samfélaginu? Hvernig tryggjum við að atvinnulíf okkar haldist í hendur við það sem er að gerast í ríkisfjármálunum? Hvernig tryggjum við að hjól atvinnulífsins snúist, ekki að þau ofhitni eins og ákveðin tilhneiging hefur verið til heldur að þau snúist áfram og haldi áfram að tryggja velsæld í samfélaginu, ekki ofvöxt heldur ástand sem við getum öll sætt okkur við? Þetta allt er á ábyrgð okkar stjórnmálamannanna og þessara spurninga þarf að leita svara við hjá fjárlaganefnd.

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar kemur inn á þrjár meginstoðir samfélagsins. Hún byggir á því að þessar þrjár meginstoðir haldist í hendur, séu hver og ein jafnrétthá og hver og ein jafnstyrk. Hverjar eru þessar stoðir? Þetta eru stoðir efnahagslífsins, þetta eru stoðir umhverfisins, þetta er spurningin um náttúruauðlindir okkar og þetta er spurning um samfélagslegar stoðir. Þessir þrír þættir halda uppi samfélagi okkar. Ef einn þátturinn er vanræktur og fær ekki þá næringu eða þá athygli sem nauðsynleg er þá eru hinar stoðirnar ekki nægilegar til að halda samfélaginu uppi. Ég hvet hv. þingmenn fjárlaganefndar til að hafa þetta í huga þegar farið verður í umræðu um fjárlagafrumvarpið, að leitað verði nýrra leiða og skoðuð verði ný hugmyndafræði og þá tel ég (Forseti hringir.) að hugmyndafræði okkar vinstri grænna, hið nýja vinstri, sé leið til framfara.