141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið, þetta stóra árlega mál. Ég vil hefja mál mitt á að fagna þeirri breytingu sem hefur orðið á umræðunni um fjárlögin. Hún verður, að mér sýnist, til mikilla bóta, miklu markvissari og mun skila meiru í upplýsingum talið.

Ég hef ætíð hafið mál mitt um fjárlögin á því að velta því upp, sem ég tel að sé rétt, að fjárlagagerð á Íslandi þessi árin er ekki auðvelt verk og hefur ekki verið, er sennilega erfiðari en nokkru sinni fyrr. Það er kannski ekki hægt með sanngirni að áfellast þá fjármálaráðherra sem hafa verið hér að verki þó að menn hafi kannski ýmislegt við stefnuna að athuga. Ég leyfi mér samt að gera athugasemd við þennan stólaleik sem hefur verið í gangi með stöðu fjármálaráðherra þar sem fyrst var Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, nú er hæstv. ráðherra Oddný Harðardóttir til örfárra mánaða og eftir viku eða tvær tekur þriðji fjármálaráðherrann við. Þetta er merki um það að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sýni þessum málaflokki ekki virðingu, þetta snýst um stólaleik fyrir formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fremur en að haldið sé hér skipulega á fjárlagagerðinni og þeirri þekkingu sem fjármálaráðherra hverju sinni þarf að hafa á henni. Með fullri virðingu fyrir núverandi fjármálaráðherra og þeim sem tekur við innan nokkurra vikna hef ég af setu minni í fjárlaganefnd næga þekkingu á því til að vita að það skiptir máli að fjármálaráðherra hvers tíma hafi reynslu af málaflokknum. Það er ekki góður bragur á svona vinnubrögðum.

Hvað fjárlagafrumvarpið sjálft varðar er framhald á þeirri stefnu sem við höfum séð undanfarin fjögur ár, þ.e. skattahækkanir og niðurskurður. Þó að skattahækkanirnar séu með minna móti nú en áður og einnig niðurskurðurinn er engu að síður um að ræða áframhald á þessari sömu leið, þessari svokölluðu blönduðu leið sem við sjáum núna í ár eins og við sáum í fyrra og hittiðfyrra að gengur ekki upp. Skuldastaða ríkissjóðs fer versnandi, skuldirnar hækka, vaxtakostnaður eykst og atvinnulífið er farið að hökta vegna hárra skatta.

Sjálfur hef ég verið mikill talsmaður jöfnuðar á Íslandi og ég tel að það skref sem stigið var með þrepaskiptum tekjuskatti hafi verið farsælt. Ég tel líka að atvinnugreinar eins og ferðaþjónustan eigi ekki að njóta einhverra ívilnana í formi virðisaukaskatts, alls ekki á þeim tímum sem hún býr við núna sem er gríðarlegur uppgangur og arður af ferðaþjónustu. Ríkið þarf á tekjum að halda og ef einhverja á að skattleggja á að skattleggja þá sem búa við þann hvalreka sem gengisfall krónunnar hefur boðið þeim upp á. Þannig á að nálgast hlutina. Ég geri ekki almennar athugasemdir við þær skattahækkanir sem hér eru gerðar nema það sem kemur skýrt fram í frumvarpinu, að það eigi að hækka gjöld og tekjur ríkissjóðs vegna almennra verðlagshækkana.

Í 40 ár höfum við búið við verðbólgu og með þessu kyndir ríkið enn eitt árið undir áframhaldandi verðbólgu. Verðið á tómatsósuflöskunni úti í búð hækkar sem og verðið á brauðinu og þá hleypur fjármálaráðherra þjóðarinnar til og hækkar gjöld ríkissjóðs til að halda í við tómatsósuna sem í kjölfarið mun svo aftur hækka vegna þess að verslunareigandinn þarf að greiða hærri gjöld. Þetta er vítahringur sem er svo fáránlegur og við eigum að vera löngu búin að átta okkur á að hann er til skaða fyrir Ísland. Ég talaði rækilega um þetta í fyrra í þessu samhengi en engin breyting hefur orðið á fyrirkomulaginu. Ég hvet stjórnarmeirihluta og fjármálaráðherra til að breyta um stefnu í þessu.

Það vantar upptalningu í frumvarpinu á einhverju sem telst ekki beint skuldir ríkissjóðs en er gríðarlegar skuldir Seðlabankans og sá gríðarlegi vaxtakostnaður sem Seðlabankinn býr við. Við höfum heldur ekki í þessu frumvarpi gríðarlega slæma skuldastöðu Íbúðalánasjóðs þriðja árið í röð þar sem hann mun þurfa að fá milljarða í framlag frá ríkissjóði. Við höfum hin fyrirtækin sem sum standa vel en önnur illa eins og Landsvirkjun sem skuldar hundruð milljarða og er með ábyrgð ríkisins. Við höfum ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar upp á tugi og hundruð milljarða sem enginn hefur enn þá komið fram með hugmynd um hvernig á að leysa. Við höfum gríðarlegar skuldir sveitarfélaga þar sem 12 sveitarfélög eru með ósjálfbærar skuldir, ef ég man rétt. Ég hef ekki séð neitt í þessu frumvarpi um hvernig á að leysa það því að á endanum lenda skuldir sveitarfélaga á ríkinu eins og staðan hefur verið með til dæmis Álftanes. Hér er ekki heldur um að ræða nema lítinn hluta af skuldum hins opinbera.

Hér fara 90 milljarðar kr. í vaxtakostnað, 17–19% af öllum skatttekjum ríkisins, fer eftir því við hvora reikniregluna maður miðar. Það er gríðarlega hátt hlutfall. Nærri því 20% af skatttekjum fara eingöngu í að greiða vexti. Við höfum bent á að slík skuldastaða sé einfaldlega ekki sjálfbær. Við höfum fært fyrir því rök, þar á meðal rök með álitum erlendra sérfræðinga í skuldastýringu ríkissjóða.

Á árinu hafa erlend lán verið tekin og önnur verið greidd upp. Erlendu lánin sem voru tekin voru með umtalsvert verri kjörum en þau sem voru greidd upp. Er það ráðdeild í skuldastýringu ríkissjóða að haga málum með þeim hætti? Þau kjör sem ríkið fékk á Bandaríkjamarkaði í dollurum voru verri en venjulegur íbúðareigandi fær þegar hann labbar inn í banka og tekur húsnæðislán. Þessi kjör þarf íslenska ríkið að búa við vegna þess að það er einhver mantra í gangi um það að Ísland þurfi að sanna sig á mörkuðum, sanna að það sé lánshæft á mörkuðum. Og hvernig sannar það sig? Það sannar sig með því að taka lán hjá fjármagnseigendum sem rukka íslenska ríkið um okurvexti. Þetta er dýrkeypt og það er dapurlegt að þurfa að horfa upp á slíka þjónkun við alþjóðafjármagnseigendur. Ríkið á að hafa burði í sér til að haga málum með öðrum hætti.

Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem er ekki ásættanlegt, þar á meðal krafan um almennan niðurskurð. Krafan um stöðnun í fjárveitingum til Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana veit á illt. Sjálfur þekki ég persónulega til á Landspítalanum. Mórallinn á vinnustaðnum er í molum, starfsfólkið er mjög óánægt. Það blasir við og hefur átt sér stað flótti úr læknastéttinni, beinlínis vegna þess að menn fá miklu hærri laun sem læknar í nágrannalöndunum. Ef við höldum áfram á þessari braut er ekki hægt að segja annað en að við séum með aðför að heilbrigðisþjónustu í landinu. Það er einfaldlega mjög slæmt mál vegna þess að það er hægt að forgangsraða útgjöldum ríkissjóðs öðruvísi og það verður gera það. Það verður að forgangsraða þannig að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin setjist niður með þeim fjármagnseigendum sem við erum að borga 90 milljarða kr. á ári í vaxtakostnað og endursemji um hluta af þessum vaxtakostnaði. Þó að ekki væri endursamið nema um fjórðung af þessum vaxtakostnaði og frestun á honum kannski í fimm ár væri hægt að koma fótunum aftur undir þær mikilvægu stofnanir sem hrun blasir við. Slíkt er hægt að gera ef menn hafa til þess kjark og ef menn hafa til þess þor, en hér skal í staðinn fylgt tilmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kröfu alþjóðafjármagnseigenda út í ystu æsar og skorið inn að beini í almannaþjónustunni. Þetta er meðal þess sem Hreyfingin hefur bent á alveg frá því að við tókum sæti fyrst á þingi, að skuldastaða ríkissjóðs Íslands væri ekki sjálfbær eins og hún er og verður ekki í náinni framtíð með sama áframhaldi.

Skuldastýring íslenska ríkissjóðsins á sér stað í fjármálaráðuneytinu að hluta og að hluta til í Seðlabankanum. Slík skuldastýring er ekki í samræmi við það sem OECD leggur upp sem „best practices“ í skuldastýringu ríkissjóða. Skuldastýringin á Íslandi er nánast einsdæmi. Danmörk er eina ríkið innan OECD sem hagar skuldastýringu síns ríkissjóðs með svipuðum hætti, og Danmörk er það ríki sem OECD notar sem fyrirmynd um það hvernig skuldastýringu ríkissjóðs á ekki að vera hagað. Noregur er að vísu með sína skuldastýringu í Seðlabankanum líka en Noregur skiptir í þessu samhengi ekki máli enda hefur hann ekki þurft að taka lán í nærri þrjá áratugi, minnir mig.

Hér þarf að skipta um kúrs, herra forseti. Blandaða leiðin gengur ekki upp. Við getum haldið áfram að berja hausnum við steininn inn í framtíðina ef menn vilja en það hefur einfaldlega sýnt sig að hún gengur ekki upp. Það þarf að endursemja um vexti og um skuldir ríkissjóðs. Það þarf að stofna sjálfstæða lánasýslu ríkisins sem var hér til fram að árinu 2007 þegar hún var lögð niður á uppskálduðum forsendum af þáverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen. Slík lánasýsla ríkisins veitti meðal annars fjármálaráðuneytinu og fjármálaráðherra óháða ráðgjöf um skuldastýringu ríkissjóðs. Hún var ekki mönnuð ríkisstarfsmönnum heldur bankamönnum sem voru mjög færir á sínu sviði, margir hverjir, og skynjuðu vaxtakostnað, lántökukostnað og áhættu með miklu skýrari og betri hætti en virðist vera gert í dag.

Það þarf líka að segja satt um stóru myndina þegar kemur að fjárlagagerðinni. Það þarf að velta því fyrir sér hvað það þýðir þegar allar þessar stóru stofnanir eins og Íbúðalánasjóður, Seðlabankinn, lífeyrisskuldbindingarnar og sveitarfélögin skulda hundruð milljarða.

Við erum núna þriðja árið í röð, ef ég man rétt, að fá bakreikning frá Íbúðalánasjóði upp á á annan tug milljarða, að talið er núna enn þá. Í fyrra held ég að það hafi verið 30 milljarðar og svo mætti lengi telja. Slíkt fyrirkomulag gengur ekki. Menn verða að setjast niður fyrir fram og finna út hvað við skuldum og hvernig við ætlum að greiða það og átta sig á því þegar menn horfa á heildarmyndina að þetta er einfaldlega ekki sjálfbært. Ég leyfði mér að vona að það sem ég kalla flandur fjárlaganefndar til Svíþjóðar mundi skila einhverju inn í fjárlagagerð þessa árs, m.a. þekkingu á því að í Svíþjóð starfar lánasýsla ríkisins, elsta lánasýsla í heiminum, stofnsett á 18. öld. Í starfi mínu fyrir OECD átti ég samskipti við þá lánasýslu. Þetta eru mestu fagmenn sem til eru í heiminum á sviði skuldastýringar ríkissjóða. Það hefði verið hægt að taka líkan þeirrar lánasýslu í heilu lagi og koma því á laggirnar á Íslandi til að setja Ísland í fremstu röð meðal skuldugra þjóða heims hvað skuldastýringu ríkissjóðs varðar og það hefði þýtt um leið að lántökukostnaður ríkissjóðs hefði lækkað vegna þess að þá hefði heimurinn getað gengið að því vísu að hér væri skuldastýringu beitt eins vel og mögulegt væri. Þetta hefur ekki verið gert enn þá. Ég lýsi eftir því við einhvern næstu fjármálaráðherra að þeir beiti sér fyrir þessu. Það er ómögulegt sem stendur að vita hversu margir fjármálaráðherrar verða komnir og farnir þegar þar að kemur en vonandi bera fjármálaráðherrar framtíðarinnar, fjármálaráðuneytið og Alþingi Íslendinga gæfu til að taka á þessum málum með faglegri hætti en gert hefur verið hingað til.