142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og fyrir margar góðar ábendingar. Aðeins vegna þess sem nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á varðandi forgangsröðun þá er alveg rétt að ég nefndi forgangsröðun í ræðu minni hér áðan, en það laut að því að þetta er hluti af þeirri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem ég hélt að öllum væri ljós og kunn sem er sú að þetta sumarþing skuli fjalla holt og bolt um málefni sem lúta að skuldamálum heimilanna og tryggja að við séum að taka á þeim vanda fljótt og örugglega. Þetta er liður í því. Þetta er auðvitað ekki það mál, en þetta er liður í því eins og ég nefndi áðan og vísaði þess vegna til forgangsröðunar og til þingsályktunartillögu sem nokkrir hv. þingmenn hafa einnig nefnt hér í kvöld, til að hafa sagt það fyrst.

Ég þakka sérstaklega góðar ábendingar frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og vil nefna í því samhengi og sjá til þess að þeim punktum verði einnig komið til nefndarinnar að það er þannig samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá umboðsmanni skuldara í gær að ellefu svokölluð prófmál voru talin hafa mikil áhrif. Einungis þrjú af þeim prófmálum eru enn óleyst. Það breytir þó engu um það að t.d. hjá Héraðsdómi Reykjavíkur voru í lok síðasta árs 622 ólokin mál. Fjöldi þeirra mála tengist auðvitað með einum eða öðrum hætti uppgjöri er lýtur að skuldamálum heimilanna. En varðandi prófmálin, af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um þau, þá voru þau ellefu en þrjú eru talin óleyst.

Síðan varðandi það hversu hratt er hægt að afgreiða málin og hversu mikinn hraða er hægt að setja í þetta þá þori ég ekki á þessum tímapunkti að spá nákvæmlega um það vegna þess að í þessu kemur auðvitað fram, og kom ágætlega fram í máli flestra þingmanna, að við erum fyrst og síðast að veita dómurum heimild til að flýta málum, hraða meðferð eins og mögulegt er og eyða þar með óvissu. Nákvæmlega hvað það þýðir er t.d. að allir dómarar sjái til þess að allir frestir í málum séu eins stuttir og mögulegt er. Við væntum þess og vonum að það muni skila árangri og við munum auðvitað fylgja því eftir.

En varðandi frekari spurningar, sem komu t.d. fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, þá munum við taka saman gögn um það fyrir nefndina. Ég vil aðeins vegna orða þess hv. þingmanns, vegna þess að ítrekað hefur verið talað um hvaða öðrum málum yrði ýtt til hliðar, nefna að það kemur einnig fram í greinargerðinni. Þetta snýst um, með leyfi forseta, „að taka fram fyrir önnur mál þau mál sem lúta að ágreiningi á þessu sviði“. Það er sem sagt verið að hraða málum. Við eigum ekki von á að það valdi því að allt önnur mál, eins og mér fannst koma fram í máli hv. þingmanns, bíði. Það er auðvitað þeirra sem fást um þetta hjá dómstólunum að ákveða það en fyrst og síðan er þetta heimild til dómara til að stytta fresti, til að hraða málum og tryggja með þeim hætti — og aftur kem ég inn á orð sem sumum hv. þingmönnum er frekar illa við — að forgangsraða þannig að tryggt sé að þessi mál leysist eins fljótt og mögulegt er.

Ég held að við hljótum öll að fagna því og að við séum öll sammála um það að tryggja að þetta gerist eins hratt og örugglega og hægt er. Það þýðir þó ekki og ég árétta það vegna þess að mér finnst nokkuð eima af þeirri umræðu hér, segi ég sem nýr þingmaður, í því felst enginn áfellisdómur yfir einum eða neinum, enginn áfellisdómur yfir fyrri ríkisstjórn eða einhverjum störfum einhverra, að þegar hv. þingmaður talar um viðkvæmni þá hvet ég þingmenn líka til að nálgast þessi mál þannig að byrja ekki að útskýra hvað var gert á síðustu fjórum árum eða hvort í einhverjum ákveðnum orðum eða frumvörpum felist áfellisdómur yfir einhverju. Fyrst og síðast er þetta okkar innlegg og ég vona að það verði sameiginlegt innlegg alls þingsins að taka á þeim málum sem eru brýn, róa fólkið sem stendur í þeim sporum að þurfa að búa við óvissu í kringum þau og tryggja það að almenningur sjái og skynji að okkur er alvara þegar við segjumst ætla að taka á þessum málum. Í því felst eins og ég ítrekaði enginn dómur yfir einum eða neinum, ekkert hrós eða lof í garð eins eða neins heldur bara að taka á þeim málum sem við teljum brýn.