143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni, og ætla að endurtaka það aftur, að það er gríðarlega mikilvægt að ríkissjóður sé rekinn réttum megin við núllið. Fyrsta sem ég nefndi af þeim verkefnum og atriðum sem ég vil sjá að aukið fjármagn fari til voru heilbrigðismálin. Ef við finnum til þess svigrúm einhvers staðar í fjárlögum, með breytingum, með niðurskurði á öðrum sviðum, eigum við að auka fjármagn til heilbrigðismála. Það er algjört grundvallaratriði. Ég vil því segja að það sé að einhverju leyti útúrsnúningur, eða misskilningur ef það hefur ekki komið nægilega vel fram af minni hálfu, að svona vil ég sjá þetta. En grundvallaratriði er að ríkissjóður sé rekinn réttum megin við núllið og að við höldum því þegar fjárlög verða samþykkt hér fyrir jól.

Varðandi bankaskattinn, hvort hæstv. forsætisráðherra hafi lagt slíka tillögu fram á síðasta þingi, þá held ég að hv. þingmaður verði að beina því til hæstv. forsætisráðherra. En það liggur algjörlega ljóst fyrir að það þarf ákveðinn kjark og þor til að taka á (Forseti hringir.) kröfuhöfum föllnu bankanna. Ég hef fulla trú á því að forusta núverandi ríkisstjórnar hafi þann kjark. Ég hafði ekki trú á því að forusta síðustu ríkisstjórnar hefði þann kjark. (Gripið fram í.)

Ég náði því miður ekki að svara lokaspurningunni, frú forseti.