144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

villur í fjárlagafrumvarpinu.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því að þurfa að kveðja mér hljóðs hér undir þessum lið en í gær voru sagðar af því fréttir að þskj. nr. 1 sem á að koma hér til umræðu undir 1. lið á dagskrá væri í mikilvægum atriðum rangt. Á bls. 207 í fram komnu fjárlagafrumvarpi væru rangar tölur um fyrirhugaðar breytingar bæði á virðisaukaskatti, á vörugjöldum, á sykurgjöldum þar sem talan 24,5% væri í stað 24%, 11% í stað 12%, að ekki verði felld niður vörugjöld á sykur og aðrar vörugjaldalækkanir verði teknar í tveimur áföngum.

Ég vil í fyrsta lagi inna annaðhvort hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það sé rétt að fjárlagafrumvarpið sé rangt um þessar lykiltölur á bls. 207 og hvort gerðar hafi verið ráðstafanir til að leiðrétta útgáfuna á netinu þannig að það séu réttar upplýsingar um þessar stóru skattkerfisbreytingar, a.m.k. á netinu, og þá hvort prenta eigi upp síðuna þannig að þingmenn hafi réttar upplýsingar tiltækar við upphaf umræðunnar í þinginu og þingskjölin séu í samræmi við þær tillögur sem fram eru komnar.