144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Það verður seint sagt um þessa ríkisstjórn að hún sé vinur láglaunafólks og landsbyggðarinnar. Við erum líka búin að átta okkur á því hverjir eru vinir hennar. Það er efnafólk í landinu. Það er greinilega unnið hörðum höndum að því að færa aftur auð og völd til þeirra sem voru hér aðalgerendur fyrir hrunið, ýmissa útvalinna hópa í þjóðfélaginu, og skilja aðra eftir slyppa og snauða. Það stefnir því miður allt í aukinn ójöfnuð. Ég spyr hvort við viljum sjá það sem þjóð og hvort hrunið eigi ekki að vera okkur víti til varnaðar.

Þessi hækkun á matarskatti er ekkert annað en herferð gegn tekjulágum og atvinnulausum. Við vitum það að verkalýðsfélögin eru nú að undirbúa kjarasamninga, kjarasamningar eru lausir um áramótin. Hætt er við að þær kjarabætur sem náist þar hverfi í hækkuðu matarverði. Það er líka þekkt að tekjulægra fólk eyðir stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup og nauðsynjavörur og að lágtekjufólk hefur ekki mikla möguleika að nýta sér vörugjaldslækkanir á dýrum varningi og ýmsum vörum sem má flokka undir lúxusvörur. Það voru ekki neinar viðræður við verkalýðshreyfinguna um þessar virðisaukaskattsbreytingar eins og lofað var við gerð síðustu kjarasamninga og var lögð bókun um það efni fram. Það er hætt við að þessar hækkanir skili sér út í verðlagið, reynslan hefur sýnt það.

Skattalækkanir hafa ekki verið að skila sér til lágtekjufólks, það eru fyrst og fremst þeir efnameiri sem hafa notið þeirra.

Síðustu fjárlög voru líka aðför að lágtekjufólki og landsbyggðinni og það er haldið áfram á sömu braut. Nú um áramótin blasir við að um 600 manns missa atvinnuleysisbætur. Það er boðað að bótaréttur verði styttur úr þremur árum í tvö og hálft ár og fólk sent í framhaldinu á framfærslustyrk hjá viðkomandi sveitarfélagi, sem er mun lægri. Vinnumarkaðsaðgerðir eru skornar niður.

Ef við horfum til þátta eins og vegagerðar í landinu þá er hún svelt og aukið vegafé til viðhalds vega sem samgönguáætlun gerði ráð fyrir skilar sér ekki, bara lítill hluti þess sem var áætlað. Engin viðbót í viðhald vega sem við þekkjum öll að er mjög brýnt að sinna og kemur niður á endurnýjun vega til framtíðar. Það kostar þá miklu meira að byggja upp en annars hefði verið. Stöðug aukning ferðamanna kallar líka á uppbyggingu innviða í landinu. Ferðaþjónustan býst við allt að 1,3 milljónum ferðamanna 2017, eins og allt stefnir í.

Bændasamtökin mótmæla harðlega virðisaukaskattshækkunum á innlenda framleiðslu og telja að það sé ekki verið að fylgja því eftir sem þessi ríkisstjórn hefur boðað, að það eigi að auka innlenda framleiðslu í landinu. Fjárframlög til Landbúnaðarháskóla Íslands eru skorin niður meðan aukin eru framlög til annarra háskóla. Einnig er fjárframlag til Háskólans á Hólum lækkað og maður spyr sig: Er verið að refsa fyrir andstöðu við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri við Háskóla Íslands? Þannig má lengi telja.

Skuldavandi ríkissjóðs er mikill en samt kýs ríkisstjórnin að afsala sér tekjum af veiðigjöldum og með skattalækkunum á efnafólki, afnámi auðlegðarskatts og afnámi vörugjalda af lúxusvarningi og óhollustuvörum. Maður spyr sig: Hvaða blekkingaleikur eru þessar skattalækkanir sem styrkja eingöngu stöðu auðvaldsins í landinu og skilur þá efnaminni eftir, bæði aldraða og öryrkja, sem ölmusuþega? Þetta er þjóðfélag sem við vinstri græn viljum ekki sjá og viljum ekki búa í. Við munum gera allt sem við getum til þess að (Forseti hringir.) vísa þessum fyrirætlunum aftur til föðurhúsanna og byggja upp (Forseti hringir.) réttlátara samfélag.