145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:16]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu, mjög málefnalega og skýra. Ég vil í upphafi segja að það er ekkert einfalt að fást við þennan málaflokk. Það er kannski aðalsmerki málaflokksins landbúnaðar þegar litið er á samræmi á milli ríkja hversu fast menn halda í sinn landbúnað og vilja verja hann á öllum sviðum. Það sem ég var að lýsa áðan í ræðu minni var að við hefðum gríðarlega mikið frjálslyndi. En við höfum örfáa búvöruflokka sem við höfum valið að verja af því að þeir eru framleiddir hér á landi, þeir eru mikilvægir fyrir okkar byggðir o.s.frv.

Ég vil samt segja, þegar menn tala um þann frábæra árangur er varð við niðurfellingu tolla á grænmeti, eftirfarandi: Það er alveg rétt að það varð mikil breyting en það gleymist mjög oft í umræðunni að um leið og þessi breyting var gerð þá hófst í kjölfarið hérna mikil bylgja sem hvatti mjög til neyslu á grænmeti. Það er stór hlut af skýringunni á því hvers vegna við höfum náð að byggja upp ylræktarstöðvarnar og efla þessa framleiðslu á þeim tíma sem frá er liðinn, einfaldlega vegna þess að eftirspurnin margfaldaðist. Menn gleyma þessu oft í þessari umræðu, í þessari gloríu í kringum árangur eða meintan árangur af niðurfellingunni.

En um osta og slíkar vörur ætla ég enn að halda mig við það plan, af því að hv. þingmaður orðaði það þannig, að við gerum þetta í gagnkvæmum milliríkjaviðskiptum, að við fellum niður tolla, t.d. af ostum, gegn því að fá markaðsaðgang að öðrum löndum fyrir okkar vörur sem við framleiðum. Ég er alveg sammála þingmanninum um að við ættum að hafa sýn í þessum málum. Þróunin hefur öll verið í þessa átt. Við munum ekkert snúa henni við. Það þýðir ekkert að halda því fram að bændur eða aðrir ríghaldi í eitthvert kerfi og vilji engar breytingar.