145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég get ekki sagt að ég fagni þeim áherslum sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu og hefði viljað sjá þær nokkuð aðrar en raun ber vitni. Ég verð þó vissulega að fagna því sem kom fram í andsvörum áðan, að skynsemin virðist svífa yfir vötnum þegar kemur að því að unnt væri að klára Norðfjarðargöng og þannig jafnvel spara þegar á heildina er litið frekar en að láta tækin liggja ónotuð eða færa þau til. Ég fagna því að einhvers staðar er skynsemi sem svífur yfir vötnum. Auðvitað fagna ég því líka að fjárlagafrumvarpinu er nú skilað með afgangi. Það er annað árið í röð, er það ekki? Eins og oft hefur komið fram í umræðunni í dag, og ég verð að ítreka það sem aðrir hafa sagt, varð sá viðsnúningur sem við sjáum nú í efnahagsmálum þjóðarinnar ekki til á Laugarvatni vorið 2013. Hann er afrakstur vinnu sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagðist í og það var okkur ekkert skemmtiefni hér í þessum sal sem studdum þær aðgerðir sem þá voru gerðar, sem var að skera niður í heilbrigðiskerfinu, skera niður í menntakerfinu, skera niður í almannatryggingum og alls staðar þar sem eitthvað var hægt að skera. Þetta var okkur ekki ánægjuefni. En af hverju er ég að endurtaka þetta þegar fólk er orðið hundleitt á því að vera alltaf að vitna í fortíðina og kenna einum um og þakka sjálfu sér? Það er vegna þess að ég sit í þingsal undir frammíköllum frá formanni fjárlaganefndar sem tönnlast á því að þetta hafi verið eins og við hefðum verið að þessu að gamni okkar. Það er óþolandi að sitja undir því. Þessu beini ég sérstaklega til formanns fjárlaganefndar og verð þá í leiðinni að undra mig á því að hún skuli ekki taka þátt í þessari umræðu hér og hvað þá einhver annar framsóknarmaður. Við erum mörg sem veltum því fyrir okkur hvort þetta frumvarp sé bara á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokkurinn komi ekkert að því. Ég minni á það að í umræðunni um ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára sem var lögð fram í vor tóku framsóknarmenn heldur ekki til máls. Þetta hlýtur að vera mjög undarlegt.

Svo ég komi að öðru langar mig aðeins að minnast á heilbrigðiskerfið. Ég ætla að koma betur inn á það á morgun í viðræðum við heilbrigðisráðherra, virðulegi forseti, en ég sé ekki betur en að hér sé að verða til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Það er að verða til í skjóli fjármagns og næstum því í skjóli nætur. Það verður að ræða það í þinginu ef við ætlum virkilega að gera þetta.

Ég þurfti að fá nýja augasteina og ég beið í eitt og hálft ár. Ég borgaði innan við 50 þús. kr. Ég hefði getað fengið þá fyrir 330 þús. eftir þrjár vikur ef ég hefði farið til einkafyrirtækis. Þetta er tvöfalt kerfi. Fólk getur valið sér það að fá nýja augasteina og þá getur það borgað en þeir sem þurfa að fá þá eiga að fá góða þjónustu í hinu opinbera heilbrigðiskerfi.

Svo ætlaði ég að koma að skattapólitíkinni. Ég mun gera það betur síðar þegar þau frumvörp verða lögð fram en til að segja það í sem stystu máli er ég beinlínis andvíg þeirri skattapólitík sem er lögð hér fyrir. Ég er andvíg því að afnema og minnka þrepaskiptinguna í skattkerfinu. Ég er bókstaflega andvíg því. Mér er alveg sama þótt samið hafi verið um það í kjarasamningum, ég er samt andvíg því vegna þess að þrepaskiptingin eykur tekjujöfnunaráhrif tekjuskattsins og það tel ég að við eigum að reyna að gera. Ég vil líka segja það í þessari andrá að ég undrast enn, eins og ég gerði í fjárlagaumræðunni í fyrra, þá litlu áherslu sem þessi ríkisstjórn leggur á það að lækka tryggingagjaldið. Ég veit alveg að það er einhver áætlun um það og farið eftir henni en sú áætlun gerir ráð fyrir lítilli lækkun og ég er hissa á því vegna þess að þetta er það sem kemur litlu fyrirtækjunum best, að lækka tryggingagjaldið. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn stendur með stórbokkum, hvort sem þeir eiga fyrirtæki eða ekki.