145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra talaði digurbarkalega um þetta sem mikil velferðarfjárlög. Ég verð því að spyrja hv. þingmann, þar sem hann er fyrsti framsóknarmaðurinn og sá eini sem hefur talað hér í þessu máli í dag, aðeins út í þetta vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu er boðaður niðurskurður til Landspítalans. Þegar við lesum textann um Landspítalann er krónutöluhækkun en það er ekki raunhækkun vegna þess að þar er gert ráð fyrir að honum sé bætt verðlag og launahækkanir og svo ofan á þær 90 millj. kr. sem þarna virðast standa út af til Landspítalans kom fram hér í morgun að ekki hafi verið gert ráð fyrir launahækkunum vegna gerðardóms frá því í sumar. Þetta er eitthvað allt annað en velferðarfrumvarp ef fram vindur sem hér er boðað.

Ég vil spyrja talsmann Framsóknarflokksins í þessum umræðum: Eru þeir sáttir við þetta? Á þetta virkilega að standa svona? (Forseti hringir.) Eru menn í alvörunni að fara að skera niður til Landspítalans?