148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil taka það fram fyrst að ég er ánægður að heyra áherslur ráðherra á áframhaldandi uppbyggingu starfsgetumats, þ.e. að við breytum núverandi matskerfi úr örorkumati yfir í starfsgetumat. Ég held að það sé alltaf miklu jákvæðara að meta fólk út frá getu en vangetu. Ég átta mig um leið á þeim efasemdum sem verið hafa í hópi öryrkja og hjá hagsmunahópum þeirra hvað þetta kerfi varðar og langaði að heyra skoðanir ráðherra á því hvernig hægt sé að koma til móts við þær. Fyrir það fyrsta þarf að hafa í huga að hlutfall hlutastarfa á íslenskum vinnumarkaði er óvenjuhátt í samanburði við nágrannalönd okkar. Ég held að vandinn liggi ekki þar heldur í því hvernig við getum aukið sveigjanleika vinnumarkaðarins þegar kemur að einstaklingum með skerta atvinnugetu og hvernig við getum byggt upp skilvirkara stuðnings- og hvatningarkerfi til atvinnuþátttöku. Þetta er ekki einfalt viðfangsefni, í raun gríðarlega flókið og viðkvæmt. En það er líka með sama hætti ljóst í mínum huga að núverandi fyrirkomulag og stefna er algerlega gengin sér til húðar, er í raun gjaldþrota. Því er gríðarlega mikilvægt að hér takist vel til.

Mér þætti áhugavert að heyra hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig megi ná fram þátttöku vinnumarkaðarins og auknum hvata til atvinnuþátttöku þar.