148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að fá þetta fram varðandi borgarlínuna. Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum því verkefni áfram og að ákveðnir hópar innan stjórnarflokkanna stoppi það ekki. Við vitum mætavel að ekki eru allir mjög hrifnir af borgarlínunni í ríkisstjórnarflokkunum þremur, líklega eru Vinstri græn áhugasömust um hana. Að einhverju leyti fagna ég þessum orðum hæstv. ráðherra; við þurfum að halda þessu verkefni áfram alveg ótvírætt.

Síðan er það hitt að tvöföldun á Reykjanesbraut frá Krýsuvík kostar ein og sér 5,4 milljarða. Í nýframkvæmdir á öllu landinu núna, samkvæmt gildandi fjárlögum, fara 9 milljarðar. Það sjá allir sem vilja sjá að samgönguframkvæmdir, uppbygging almenningssamgangna hér á suðvesturhorninu, sitja eftir. Ég kalla því aftur eftir skýrri framtíðarsýn varðandi samgönguuppbyggingu hér á höfuðborgarsvæðinu en eðlilega tökum við (Forseti hringir.) þá umræðu í tengslum við samgönguáætlun. En fjárlögin gefa ekki tilefni til bjartsýni fyrir íbúa á suðvesturhorninu.