148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka heilbrigðisráðherra falleg orð í garð okkar gamla fólksins. Ég geri mér vel grein fyrir því að það er skortur á hjúkrunarrýmum. Mín orð hér áðan má ekki túlka þannig að ég sé að gera lítið úr þeim vilja sem kemur fram varðandi það að byggja hér fleiri hjúkrunarrými. Alls ekki. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að ég er sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um að við þurfum fjölþætt úrræði.

Þar sem ég hef haft fyrir sið mjög lengi að hlusta eftir röddum fagfólks sem hefur meira vit á hlutum en ég sjálfur, og hef því þurft að hlusta mikið og oft, get ég ekki látið hjá líða að benda á það sem landlæknir sagði hér um daginn. Ég veit að um 100 aldraðir liggja á Landspítalanum í dýrasta gistiplássi á landinu, vilja ekki vera þar, þurfa ekki endilega að vera þar, ættu að vera annars staðar í betri aðstæðum, og hjarta mitt finnur til með þessu fólki og aðstandendum þess. En ég segi: Það gæti verið hægt að stytta þennan biðlista sem er eftir hjúkrunarrýmum með því að setja nú þegar meiri fjármuni í heimaþjónustu til að gera þeim sem þar eru, þurfa að vera eða vilja vera í eigin húsnæði, dvölina sem bærilegasta og öruggasta þar til sá tími kemur að þeir fá inni á hjúkrunarheimilum sem verða hugsanlega byggð á grundvelli þess plaggs sem ég var með í höndunum áðan.

En fjarri mér sé að halda að til sé ein lausn á vanda allra eldri borgara.