148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum auðvitað að vinna býsna hratt hérna, bæði ný ríkisstjórn og nýtt þing, og takast á við fjárlagafrumvarpið. Okkur fannst mjög mikilvægt í ríkisstjórninni, þegar fjárlagafrumvarpið væri lagt fram, að sýna á spilin, sýna hvert við erum að stefna. En auðvitað erum við ekki búin að fullmóta hvernig allt kjörtímabilið muni líta út. Það tengist m.a. vinnunni við fjármálaáætlun sem mun hefjast núna strax eftir áramótin. Það þýðir bara hversu mikið fé til að mynda verður hægt að nota í nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum. Þannig að ég get kannski ekki farið út í ákveðnar hugmyndir eða hvað ég vildi helst sjá á þessu stigi málsins. Auðvitað vildi ég gjarnan fá meira fjármagn í ýmsa málaflokka, ekki síst í framkvæmdir og viðhald í samgöngunum. Það mætti líka sjá fyrir sér aukna fjármuni í sóknaráætlanir og fjarskiptasjóð, svo dæmi sé tekið, við þessa afgreiðslu. En heilt yfir (Forseti hringir.) er þetta auðvitað veruleg aukning og verkefni að spila vel úr því sem hér er lagt fram.