148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir fínar spurningar. Auðvitað gæti ég sagt að ég sé ekki ánægður með þau fjárframlög sem hér renna til samgangna, því að ég get svo sannarlega notað meiri fjármuni. Hins vegar er ég ánægður með að við séum við þær aðstæður sem við búum við að auka á milli ára um 7,5 milljarða, 7,7% til ráðuneytisins. Það væri ósvífni að vera með meiri kröfur á þessum tímapunkti. En við þurfum að sjá aðeins lengra inn í framtíðina til þess að það sé samspil milli fjögurra ára samgönguáætlunar og tólf ára og fjármálaáætlunarinnar. Það er það ekki í dag, á milli þeirrar fjármálaáætlunar sem í gildi var fram að þessum kosningum og er að fara að falla út þegar við setjum nýja eftir áramót, né heldur þeirrar samgönguáætlunar sem var samþykkt á haustdögum 2016, sem var langt umfram þau fjárlög og fjármálaáætlun sem þá var. Þótt það hafi oft verið eitthvert smá bil þarna á milli hefur það aldrei verið stærra og það hefur verið vandamál. En við erum að hjálpa til með því að auka framlögin í þessum fjárlögum og á undanförnu ári. En auðvitað þarf miklu meira til til þess að standa undir því.

Varðandi innanlandsflugið er það rétt hjá hv. þingmanni að ég held að allir flokkar hafi verið tilbúnir til að skoða hina svokölluðu skosku leið sem þá var svo kölluð, þar sem íbúum á ákveðnum tilteknum svæðum er einfaldlega endurgreiddur kostnaður við flug, stuðningurinn er með þeim hætti. Það virkar vel, hefur virkað vel í Skotlandi, og mjög margt áhugavert við það. Það var nefnd að störfum sem skilaði áfangaskýrslu, það var málþing núna á haustdögum, þar sem fyrstu hugmyndirnar um kostnað voru annars vegar á bilinu 400–800 en þær hugmyndir sem menn voru hins vegar helst að tala um voru um 600–700 milljónir. Í dag erum við að nota um 2 milljarða í niðurgreiðslu í þessum samgöngum. Kannski getum við notað þá fjármuni betur. Við þurfum að tengja almenningssamgöngurnar á vegunum betur við innanlandsflugið og nýta fjármunina betur. En ég held að þessi leið sé eitt af því sem við viljum skoða og var m.a. skrifuð í stjórnarsáttmálann.