149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tíu mínúturnar fljúga dálítið hratt. Mig langaði til að eiga smáorðastað við hv. þingmann, formann fjárlaganefndar, um vinnu fjárlaganefndar í kjölfarið og starfsáætlun þingsins. Í drögum að vinnuáætlun fjárlaganefndar er gert ráð fyrir gestakomu þegar ráðuneytin koma og það er einhvern tímann í nóvember, en samkvæmt starfsáætlun þingsins á 2. umr. um fjárlagafrumvarpið að byrja 13. nóvember. Ef ég hef ekki lesið eitthvað vitlaust er gestakomum ekki enn lokið miðað við starfsáætlun þingsins og drög að starfsáætlun fjárlaganefndar. Samt eru allir föstudagar fullir í nefndarvinnu til að taka á móti gestum.

Er ekki starfsáætlun dálítið farin út um gluggann bara strax miðað við það?

Einnig langaði mig til að velta fyrir mér með hv. þingmanni hvort ekki væri eðlilegt að nefndin fengi upplýsingar um kostnað hinna ýmsu aðgerða ríkisstjórnarinnar til að geta einmitt rýnt hvort kostnaðarmatið sé rétt og einnig til þess að geta horft til þeirra viðmiða í eftirliti með framkvæmd fjárlaga til að geta séð eftir á að hyggja hvort matið var rétt eða ekki til þess einmitt að forðast klassísk yfirskot í áætlunum. Þeim mun mikilvægara er að koma í veg fyrir að það sé beðið um of mikinn pening til að hægt sé að monta sig af því eftir á að ekki hafi verið farið yfir áætlanir, svo ég nefni ekki einu sinni mikilvægi þeirra upplýsinga fyrir ársskýrslur ráðherra þar sem það er í rauninni ákveðin móðgun við fjárveitingavaldið, myndi ég segja, ég ætla ekkert að segja hversu mikil móðgun það er, það er óþarfi að lesa neitt í það, þegar ríkisstjórnin kemur og segir: Heyrðu, ég ætla að fá milljarð hjá ykkur til þess að gera eitthvað, kannski í loftslagsaðgerðir og eitthvað svoleiðis og fjárveitingavaldið kvittar bara upp á og segir: Allt í lagi, hér er milljarður. Gerðu eitthvað.

Við getum ekki unnið á þann hátt, þannig eru ekki lögin um opinber fjármál, það er ekki markmiðið með þeim.