149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka tillit til þess að ég fór örlítið fram yfir tímann. Það er hárrétt hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að tíu mínútur eru fljótar að fara, ekki síst þegar viðfangsefnið er umfangsmikið og margt að ræða.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á varðandi þá starfsáætlun sem við í nefndinni höfum reynt að setja okkur. Þrátt fyrir að fylla alla föstudaga fram að 2. umr. og hafa mun meiri tíma en í umræðu um fjárlagafrumvarp 2018 þegar við lengdum bara sólarhringinn, það var ósköp einfalt, er hárrétt að það er komið mjög nálægt 2. umr. þegar við gefum umsagnaraðilum færi á að koma fyrir nefndina og nefndinni færi á að eiga það samtal sem er svo nauðsynlegt fyrir greiningu á frumvarpinu. Það er hárrétt. Ég veit að við hv. þingmaður og nefndin munum í sameiningu reyna að lagfæra áætlunina eins og við mögulega getum innan þessa tímaramma. Við vorum óhrædd við það í nefndinni í umræðu um frumvarpið 2018 að nýta sólarhringinn vel, þannig að það er alveg spurning þrátt fyrir að við höfum tilhneigingu til að fylla út í tímann. Það eru til kenningar um það sem væri þess vegna gaman að ræða hér en ég fer ekki meira út í það.

Varðandi kostnaðarmatið, ég veit að hv. þingmaður fylgdist með þegar hann fór í þessa umræðu við hæstv. ráðherra, vil ég ræða í seinna andsvari.