149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir andsvarið. Við höfum náttúrlega fjallað um húsnæðisliðinn. Hann hefur sjálfur átt þátt í tillöguflutningi hér um þann þátt. Fyrir fram hlýtur maður að lýsa sig reiðubúinn að skoða það sem fram yrði lagt í þessu sambandi og vera opinn fyrir góðum hugmyndum. Ég held þó að stóra málið hérna sé það, eins og ég hef leyft mér að víkja að áður í þessum ræðustól og víðar, að það fyrirkomulag sem við búum við með verðtrygginguna er ósköp einfaldlega ekki boðlegt neinu fólki. Það er ekki neins staðar í boði. Af hverju er það? Það er af því að það þykir ekki boðlegt. Það þykir ekki boðlegt að leggja þessa áhættu á heimilin, venjulegt fólk sem er engir sérfræðingar í fjármálum eða afleiðuviðskiptum. Hvort tveggja á við þarna. Við verðum að komast út úr þessu.

Á Norðurlöndunum fjármagna menn íbúðarhúsnæði með lánum sem bera 2% vexti. Hér hafa menn farið svoleiðis fram úr sér í þessum efnum að þeir eru með verðtryggð lán og miklu hærri vexti ofan á það. Þetta er alveg glórulaust. Menn munu einhvern tímann líta um öxl og spyrja hvers konar eiginlega ráðslag hafi verið á málum í þessum efnum meðan þetta var látið viðgangast hér.

Ég verð að nota þetta tækifæri og lýsa vonbrigðum með það að af hálfu fjármálaráðherra skuli engar mótvægisaðgerðir vera áformaðar um þær viðbótarkröfur sem falla á heimilin vegna kolefnisgjaldsins en ég skal ekki orðlengja það meira. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir andsvarið.