150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi skattalækkun á lægstu laun kemur til með að hafa áhrif upp allar tekjutíundir, eins og sagt er. En ég held að það sé nauðsynlegt að fá einhvers konar útlistun á þessu og væntanlega þá í vinnu nefndarinnar sem fram undan er, áhrifunum á tekjutíundir, launabil o.s.frv. Vissulega hafa menn áhyggjur af því þegar segir hér að hækka eigi skattprósentu á þennan hóp um 1%. Þá halda menn að það þýði aukna skattbyrði. Ef svo er ekki þarf þetta náttúrlega að vera svolítið útlistað í greiningu. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Vonandi getum við fengið í nefndinni einhvers konar greiningu á þessu. Það er nauðsynlegt að mínu viti.

Auk þess hefði ég viljað fá frekari útlistun á kolefnisgjaldinu vegna þess að þetta hefur heilmikil áhrif á landsbyggðina. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þessum skatti sé ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Það er verið að hækka gjaldið. Það hefur áhrif á bensín og dísilolíu þannig að það er nauðsynlegt að fá einhvers konar greiningu á áhrifum. Nú voru ráðuneytin að koma fyrir nefndina og ræða skýrslur ráðuneytanna eða ráðherra og það fannst mér vera gegnumgangandi, herra forseti, í þeirri umræðu að ekki væri hægt að segja til um hvaða áhrif tilteknar breytingar hefðu haft. Því finnst mér vera mjög ábótavant. Við verðum að hafa mælikvarða um áhrif, eins og t.d. af svona sértækum sköttum eins og kolefnisgjaldið er vissulega.