150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert, að hlusta og heyra. Og svo er talað um aðrar leiðir, mér finnst það dálítið merkilegt líka. Hvað gerir það að verkum að einn þingmaður hefur aðrar leiðir til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu og aðhaldshlutverki en hinir þingmennirnir? Er það í raun eðlilegt þegar allt kemur til alls? Eigum við ekki að vera dálítið formlegri í samskiptum við framkvæmdarvaldið til þess að hafa allt uppi á borðum með það hvernig ákvarðanir eru teknar? Ég held t.d. að vandamálið með Landsréttarmálið hafi að hluta til verið það að það var ekki allt uppi á borðum, ýmsar aðrar samskiptaleiðir voru innan ráðuneytis o.s.frv. sem við komumst að seinna, og sumir höfðu aðgang að en aðrir ekki.

Ég velti því fyrir mér þegar ég nefni þessi atriði varðandi innleiðingu um lög um opinber fjármál: Hvernig verður hlustað á það? Er miðað við einfaldan lestur á lögum um opinber fjármál? Ég hef nefnt að það eru vandamál við ýmsar greinar sem eru ekki uppfylltar við framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga. Hvernig heyrir hv. þingmaður gagnrýni varðandi það hvað hægt er að gera? Er hún sammála því að þessum atriðum sé ábótavant og hvaða hugmyndir hefur hún um hvað hægt sé að gera til þess að komast á réttan stað?