151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

Bjargráðasjóður.

[11:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þetta brýna mál. Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að bændur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi, urðu fyrir verulegum búsifjum í tengslum við óveðrið sem hún gerði að umtalsefni. Hv. þingmaður nefnir í þessu sambandi Bjargráðasjóð sem starfar samkvæmt lögum frá árinu 2009 og er í grunninn sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Sjóðurinn hefur það verklag að vinna úr eignum sínum auk þeirra fjármuna sem koma árlega á fjárlögum inn í sjóðinn. Eignir hans voru um síðustu áramót um 200 millj. kr. en fjárlögin eru u.þ.b. 8 milljónir á ári sem er lítið fé í því stóra samhengi sem hér er nefnt í kjölfar þessa óveðurs.

Sjóðurinn auglýsti eftir umsóknum um styrki og frestur til að skila umsóknum rann út 1. október síðastliðinn. 271 umsókn barst um bætur vegna kals í túnum og 74 umsóknir vegna tjóns á girðingum og verið er að fara yfir umsóknir. Það er alveg augljóst að í ljósi þessa umfangs dugar ekki hin venjulega fjárveiting, 8 millj. kr., og spurning hvaða svigrúm verður til að mæta þessum óskum öllum saman. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja sig fram um það og mun beina þeim tilmælum til þingsins við meðferð fjárlaga að það verði gert. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á eru fordæmi fyrir slíku, árin 2012 og 2013 var kaltjón bætt með sérstakri fjárveitingu, og ég sé ekki forsendur fyrir öðru en að slíkt verði endurtekið í ljósi þeirra miklu hörmunga sem gengu yfir bændur á þessu svæði síðastliðinn vetur.