151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

Bjargráðasjóður.

[11:18]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra gott svar og treysti því að hann fylgi þessum málum eftir. Glöð skal ég taka við því hér í þinginu og leggja mitt á vogarskálarnar hvað það varðar.

En þá langar mig örstutt í lokin að koma að máli sem er reyndar ekkert smátt og ekki hægt að taka fyrir á örstuttum tíma. Á dögunum kom í ljós mikið misræmi á milli talna um útflutning landbúnaðarvara frá ESB og talna um innflutning á Hagstofu Íslands. Þetta er mikið og stórt hagsmunamál og miklir hagsmunir í húfi, störf innan lands, tapaðar tekjur fyrir ríkissjóð og það eru sameiginlegir hagsmunir bænda, neytenda og innflutningsaðila að heiðarleiki ríki um viðskipti sem þegar hefur verið samið um. Þetta kom mönnum verulega á óvart og ljóst að íslenskir bændur verða fyrir miklum búsifjum og miklu tjóni. En það kemur niður á okkur öllum, bæði neytendum og framleiðendum. Mér sýnist að við þurfum að halda fast á þessum málaflokki og mig langar að athuga hvort ráðherra getur rætt þetta mál aðeins.